139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað getur hv. þingmaður ekki útskýrt það af hverju Norðmenn gera svona. Ég vildi bara fá að heyra mat þingmannsins á því hvar hagsmunir Íslands og Norðmanna skarist, að það væri mat þingmannsins að Íslendingar yrðu að ganga lengra en EES-samningurinn þegar Norðmenn virðast ekki gera það.

Varðandi umræðuna um þessa einstöku þingmenn eða áhuga framkvæmdarvaldsins eða þjóðríkisins, stóru þjóðríkjanna, fannst mér það einmitt mikilvægt því að í ræðu þingmannsins virtist það vera þannig að verið væri að búa það til á Íslandi að verulegur áhugi væri í Evrópu. Sannleikurinn er sá, og hann kemur fram í þessum fundargerðum, að það er raunverulegur áhugi þjóðríkjanna, eða framkvæmdarvaldsins, þó að ég búist við að það sé rétt hjá hv. þingmanni að áhugi einstakra þingmanna sé mismunandi.

Ég bíð spenntur eftir svari þingmannsins um það af hverju í ósköpunum við leggjum ekki mesta áherslu á þá þætti sem hugsanlega yrðu til þess að við mundum draga okkur út úr viðræðunum.