139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[20:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Hún kom víða við og talaði um styrki og þvílíkt og það er mjög nauðsynlegt. En mig langar til að spyrja hana um lögfræðilegt atriði, þar sem hv. þingmaður er lögfræðingur, og það er hvernig hún túlkar 48. gr. stjórnarskrárinnar, sem ég er búinn að lesa upp úr nokkrum sinnum í dag. Þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Svo segir hæstv. utanríkisráðherra fyrr í umræðunni að Evrópuleiðin sé valkostur sem Íslendingar ættu að fá að velja eða hafna. Íslendingar séu lýðræðissinnar og lýðræðinu yrði þjónað best með því að leggja alla kosti á borðið, leggja samningana fyrir þjóðina og leyfa henni sjálfri að ráða.

Nú er spurning mín til hv. þingmanns: Hvor ræður meira, hæstv. utanríkisráðherra eða stjórnarskráin? Eins og stjórnarskráin segir mega þingmenn ekki taka við neinum reglum frá kjósendum sínum, heldur ekki niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna, en það þarf að leggja þennan samning fyrir Alþingi þannig að Alþingi þarf að taka afstöðu til hans og á þeim punkti verða þingmenn að fara að sannfæringu sinni og ekki taka við skilaboðum frá kjósendum sínum. Er hv. þingmaður sammála hæstv. utanríkisráðherra sem heldur því fram að þjóðin eigi að hafa síðasta orðið eða stjórnarskránni sem segir að þingmenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sinni og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum?