139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[22:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns um af hverju svo lítið sé um EFTA í skýrslunni þá er ástæðan sú að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki áhuga á EFTA og hefur ekki áhuga á að nýta tækifærin sem þar eru. Því miður hafa ansi margir embættismenn lítinn áhuga á því, þeir eru svo uppteknir af því að reyna að sannfæra okkur og selja okkur að við verðum að vera í ESB og ekki sé hægt að nota EFTA.

Hægt er að nota EFTA og það mjög mikið. Hugsið ykkur að vera í hópi með Sviss og Noregi, það eru engin smáríki. Allir vilja semja við Sviss. Ef við fáum að vera í því samfloti, eins og við höfum verið, er það gríðarlegur styrkur. Menn gleyma því að kannski það eina góða sem komið hefur í Evrópuumræðunni, eitt af fáu góðu, er að bændur voru að opna á fríverslunarsamning við Bandaríkin. Þvílík tækifæri — en þau er ekki nýtt.

Hv. þingmaður fór vel yfir þessa klúbbmenningu. Menn eru í ESB-klúbbnum og menn verða að vernda það, það er númer eitt, tvö og þrjú. En að ræða af gagnrýni hvernig menn ætla að leysa málin, það er aukaatriði. ESB hefur sett gríðarlega fjármuni í að sannfæra Íslendinga um að fara í ESB. Staðan núna, í sinni einföldustu mynd, er að Þjóðverjar borga reikninginn fyrir því að bjarga Grikklandi, eða að stærstum hluta, peningarnir fara í þýska og franska banka. Það er að vísu skattborgarinn sem tapar, hann tapar alltaf. Síðan þurfa þýsk stjórnvöld að sannfæra menn um að setja meiri peninga í púkkið því örugglega er pressa frá bönkunum um að bjarga Grikklandi og Írlandi því það hefur bein áhrif á þýska banka.

Svo við komum inn á þetta brjálaða innstæðutryggingakerfi sem ríkisstjórnin ætlar að keyra í gegn þá er ástæðan fyrir því að menn vilja ekki ræða eitt innstæðutryggingakerfi í Evrópu þýskir sparisjóðir (Forseti hringir.) sem menn hafa miklar áhyggjur af. Ekki er verið að nálgast þessi stóru vandamál heldur gengur þetta út á hjarðhegðunina. Allir að koma í klúbbinn. (Forseti hringir.) Ef einhver er leiðinlegur og gagnrýninn, eins og hv. þingmaður, þarf að tækla það sérstaklega en alls ekki vandamálið, virðulegi forseti. Það er bannað.