139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kemur inn á mjög flókið vandamál. Það að krónan féll olli íslenskum neytendum og launþegum miklu áfalli. Lán hækkuðu, gengistryggð sérstaklega, það er reyndar búið að laga þau, en verðtryggð lán hækkuðu líka. Það kom verðbólga. En útflutningsgreinarnar blómstruðu og tóku við því atvinnuleysi sem ella hefði orðið. Í kjölfarið varð verðfall á fasteignum sem hafði reyndar byrjað áður, það var hæst í október 2007. Það er sama þróun og erlendis. Gífurlegt verðfall varð á fasteignum á Spáni og í Danmörku. Ég hef heyrt að hlutfallslega fleiri fjölskyldur í Danmörku og á Spáni en á Íslandi séu með neikvæða eiginfjárstöðu, þ.e. lánin hafa setið eftir en eignirnar fallið í verði. Það fyrirbæri er því ekkert bundið við Ísland.

Ef við Íslendingar hefðum haft evru hefðum við verið í miklu þrengri stöðu. Lán og innstæður hefðu haldið sér en með gengisfalli krónunnar lækkuðu öll lán og allar innstæður líka. Fyrirtækin hefðu ekki getað flutt út því að þau hefðu ekki notið þess að krónan féll og það hefði orðið miklu meira atvinnuleysi en ella, sennilega allt að því óviðráðanlegt atvinnuleysi eins og við upplifum á Írlandi sem reyndar gerði þau viðbótarmistök, frú forseti, að veita ríkisábyrgð á bankana. Það voru óskaplega mikil mistök að láta skattgreiðendur borga fyrir mistök bankamanna. Það gerðum við Íslendingar ekki því að við höfnuðum Icesave.