139. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[00:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það síðasta sem gert var í minni tíð sem iðnaðarráðherra var einmitt að það var sent skip sem borar niður í hafsbotninn og skýtur þar rafsegulbylgjum. Það sem út úr því kom var mjög jákvætt. Það var til viðbótar annars konar prófunum. Það sem vantar núna, og væri mjög æskilegt að gera, er að gera eina djúpa tilraunaborholu, hugsanlega fleiri, þ.e. djúpa. Ef í ljós kæmi, segja mér sérfræðingar, í slíkri sýnatöku að óvefengjanlega væri um að ræða efni af þessum toga yrði mjög auðvelt að fá erlend fyrirtæki til að ráðast í olíuvinnslu.

Þegar ég var að fara úr ráðuneytinu var ég kominn á þá skoðun að best væri að fara þá leið, eins og menn hafa gert annars staðar, að fá 20 fyrirtæki til að slá saman í að gera svona á þeim grundvelli að ef jákvæð niðurstaða kæmi í ljós ættu þau forkaupsrétt að skikum á þessum stað. En mér entist ekki pólitískt líf í iðnaðarráðuneytinu til að ganga frá því, svo brast á kreppa. En þetta er eitt af því sem mætti gera í framtíðinni.

Það er áhugaverð hugmynd hjá hv. þingmanni að reyna að efna til einhvers konar samstarfs við Norðmenn um þetta. Handan við markalínuna eiga þeir auðvitað land. Við höfum samning við þá um gagnkvæma nýtingu sem er okkur miklu hagstæðari en þeim. Samningurinn er þannig að ef olía finnst hjá þeim getum við, þegar í ljós kemur að hún er til, krafist réttar, samkvæmt þessum samningi, til að fá 25% af eignarhluta í því. Ef þeir ætla að nota sama rétt okkar megin verða þeir hins vegar að gera það þegar menn byrja að leita, taka alla áhættuna.

Að öðru leyti vildi ég gjarnan geta rætt hér frekar um Jan Mayen. (Forseti hringir.) Mig langar að segja …

(Forseti (ÞBack): Það er búið að vera rautt ljós allan tímann, en tíminn er tvær mínútur og þær eru liðnar. Því miður er klukkan eitthvað biluð.)