139. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[00:29]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara hafa örfá orð í eins konar andsvari við orðum hæstv. utanríkisráðherra, þrjú tilefni.

Í fyrsta lagi. Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að ég var ekki á þingi þegar þetta átti sér stað með Líbíu og get því ekki persónulega vitnað um hvað gerðist hvar og hvenær og hvernig. Ég vil þó segja, þar sem hæstv. ráðherra vitnaði í ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, að í mínu hjarta og að mínu áliti réttlætir sú ályktun ekki þessar loftárásir. Ályktunin var opin og loðin og óljós. Stór ríki sátu hjá; Brasilía, Kína, Rússland, Þýskaland. Ég var ekki samþykk og ekki sátt við þessa ályktun og þær réttlætingar fyrir loftárásunum sem hún síðan var grundvöllur fyrir, svo því sé haldið til haga. Það breytir því ekki að vísað sé í ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem ég var auk þess ósátt við.

Í öðru lagi. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að stjórnmálamenn standa oft frammi fyrir erfiðum og flóknum spurningum sem engin einföld svör eru við. Hann nefndi sérstaklega Úganda aftur sem nokkrum sinnum hefur borið á góma bæði í dag og reyndar á síðustu dögum. Þar tek ég hjartanlega undir með hæstv. ráðherra, mér finnst þetta ekki rétta leiðin þegar við erum að mótmæla slíkum mannréttindabrotum og viljum láta kröftuglega í okkur heyra. Mér finnst persónulega ekki rétta leiðin að draga til baka alla þróunaraðstoð eða hjálp vegna þess að hún bitnar einungis á öðrum fórnarlömbum sem þurfa á hjálp að halda og standa ekki fyrir þessum líflátshótunum og mannréttindabrotum. Það er ekki lausnin heldur að finna uppbyggilegar leiðir helst í samstarfi við sem flesta aðra sem koma þarna að málum til að breyta andanum í þessum efnum.

Rétt í lokin, þar sem þetta átti bara að vera stutt andsvar, vil ég eins og ýmsir aðrir fagna hinum aukna áhuga og áherslum á norðurslóðir eins og ég sagði í ræðu minni áður, en vara jafnframt við glýju og stjörnum í augum yfir meintri olíu og hvernig allir og þar með Íslendingar ætla sér að finna olíu. Við erum líka að tala um norðurslóðirnar allar og við urðum vitni að hræðilegu olíuslysi nýlega í Mexíkóflóa. Þarna í íshöfum er gríðarleg hætta á slysum þegar siglingaleiðir fara að opnast. Það er mjög margt að varast og gæta að þegar kemur að þeim efnahagslegu áherslum sem allir ætla að reyna að nýta sér. Þess vegna er mjög mikilvægt að styrkja Norðurskautsráðið í því augnamiði að passa betur upp á norðurslóðir þannig að ríki sameinist í samvinnu um það í stað þess að efnt sé til kapphlaups eigin hagsmuna eins og svo oft hefur orðið staðreyndin víða um heim.