139. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[00:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er eitt atriði sérstaklega sem ég ætla að fagna hjá hv. þingmanni. Ég er henni hjartanlega sammála um þá niðurstöðu sem hún komst að varðandi Úganda. Ég var það ekki í upphafi en ég hef hugsað þetta mál og tel að þetta sé hárrétt. Það rímar svo sem við aðra afstöðubreytingu hjá mér, ég var lengi þeirrar skoðunar að það væri réttlætanlegt og ágæt leið ef menn vildu tjá mjög sterkan vilja þjóðar gagnvart annarri þjóð að slíta stjórnmálasambandi við hana. Ég er sérstaklega að hugsa um Ísrael. Mér fannst það koma fyllilega til greina á sínum tíma að slíta stjórnmálasambandi við þá þjóð út af framkomu hennar gagnvart Palestínu. Eins og hv. þingmaður man var mér falið af utanríkismálanefnd að kanna hljómgrunninn fyrir slíkum aðgerðum meðal annarra þjóða og ég hef gert utanríkismálanefnd grein fyrir því. Ég talaði við fjölmarga kollega mína, m.a. utanríkisráðherra Tyrklands, en skipin sem ráðist var á á leiðinni til Gaza voru einmitt tyrknesk hjálparskip. Allir, líka utanríkisráðherra Palestínu sem ég hef reyndar talað við mjög nýlega, eru þeirrar skoðunar að það skipti máli að hafa samband við ríki og tala við þau og setja þrýsting á þau gegnum samskipti og rökræðu. Þannig hefði algjörlega komið til greina að stappa niður fæti með þeim hætti gagnvart ríki eins og Íran sem brýtur mannréttindi mjög harkalega. Ég komst líka á þá skoðun að það væri miklu betra að eiga í uppbyggilegum samskiptum við slík ríki og beita þeim farvegi til að koma þrýstingi á framfæri vegna þess að það hefur áhrif.

Mörg dæmi á mínum skamma ferli sem utanríkisráðherra þar sem Ísland hefur tekið þátt í slíkum alþjóðlegum mótmælum hafa gefið niðurstöður sem sýna að það er hægt að hafa áhrif með þeim hætti. Það er því ekki fyrr en í allra, allra síðustu lög sem menn eiga að grípa til aðgerða eins og að stöðva þróunaraðstoð eða slíta stjórnmálasambandi.