144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

aðhald í efnahagsaðgerðum.

[15:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna þessara nýju frumvarpa sem við munum ræða bráðlega. Fyrst vil ég segja að ég fagna mjög því að þau séu komin fram. Það er ýmislegt sem þarf að huga að til að gera þetta af ábyrgð en ég þori að segja að þetta sé eitt af þeim málum sem er mikilvægara en önnur á þessu kjörtímabili. Það er brýnt að hér vinnum við saman og reynum að komast sameiginlega að góðri niðurstöðu vegna þess að sameiginlegir hagsmunir okkar allra eru í húfi, svo augljóslega að ég tel ekki nokkurn mann geta þrætt fyrir það.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er á sömu nótum og spurning hv. 7. þm. Suðvest., Guðmundar Steingrímssonar, nema það að mig langar að heyra aðeins meira um nýtingu fjárins. Við erum að tala um 450–850 milljarða eftir því nákvæmlega hvernig þetta kemur allt til. Eins og hv. þingmaður nefndi er til staðar gríðarlegur freistnivandi. Ég ætla bara að segja hvernig þetta var í seinustu alþingiskosningum, ég var í kosningabaráttunni og man hvernig allt í einu voru komnir 300 milljarðar sem fólk ráðstafaði með svo óábyrgum hætti að mínu mati að mér blöskraði. Ég hef alltaf séð eftir því að hafa ekki kvartað meira undan því þá, en ég kvarta undan því núna í staðinn. Ég hef miklar áhyggjur af að þetta gerist aftur. Ég þori næstum því að fullyrða að þetta gerist aftur og þess vegna finnst mér svo mikilvægt að það sé algjörlega skýrt alveg frá upphafi hvernig þetta fé verði nýtt og sérstaklega hvernig það verði ekki nýtt. Að mínu mati varðar það ekki bara stöðugleika krónunnar, þ.e. með að nýta féð og henda því öllu inn í efnahaginn aftur eða stórum hluta þess, heldur líka lögmæti aðgerðanna. Lögmæti aðgerðanna er byggt á því að þetta sé nauðsynlegt vegna þjóðhagslegra hagsmuna. Það eru forsendurnar fyrir þessum aðgerðum og ég sé það í kynningunni og hef heyrt af þeim sem ég hef talað við að þetta sé ofboðslega rík forsenda þess að gera þetta án þess að kröfuhafar, þ.e. slitabúin, hafi forsendur til að reka dómsmál.

Ég spyr því í samhengi við lögmæti aðgerðanna: Er ekki mikilvægt að þetta fé verði nýtt (Forseti hringir.) sérstaklega til þess að viðhalda stöðugleika, þ.e. til að borga niður skuldir eða halda í það til að geta haldið í stöðugleikann fyrst og fremst?