144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

frumvarp um húsnæðisbætur.

[15:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Nú er myndin tekin að skýrast og frumvörp til laga um stöðugleikaskatt og fjármálafyrirtæki vegna nauðungarsamninga loks að koma fram og hafa fengið víðtæka kynningu, samanber fundinn í hádeginu. Þetta er kannski stóra málið sem við erum öll búin að bíða eftir á þessu vorþingi en samt stendur út af að ég hafði skilið það sem svo að við mættum líka eiga von á frumvarpi um húsnæðisbætur á þessu þingi. Það er því kannski eina stóra málið sem þingið er að bíða eftir og mögulega síðasta púslið í því hvernig þinglokum verður háttað.

Mig langar í ljósi þessa að spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvort von sé á þessu frumvarpi á þessu þingi. Nú er kominn 8. júní þannig að tíminn sem við höfum hérna er farinn að styttast. Ég spyr: Eigum við von á frumvarpi um húsnæðisbætur á þessu þingi? Hvenær sér þá hæstv. ráðherra fyrir sér að við fáum að sjá það?