149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[14:38]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni einlæga ræðu. Ég hjó eftir að hv. þingmaður var með vangaveltur um hvort rétt væri að fresta málinu og vinna það frekar. Við höfum fleiri talað fyrir því og eitt af því sem hefur verið notað til að ýta málinu áfram er að það sé eiginlega komið allt að því neyðarástand vegna einhverrar óvissu sem ríkir þannig að ég kalla eftir vangaveltum hv. þingmanns, sem situr í nefndinni og þekkir þessi mál býsna vel í gegnum árin, um hvort staðreyndin sé sú að við séum hér, þingheimur, komin upp að vegg við að afgreiða þetta mál núna, mál sem er annars vegar mikilvægt og hins vegar ekki í sátt. Væri eitthvað til þess vinnandi að nota tímann í sumar til að skoða þetta og vinna frekar?

Mér þætti vænt um að fá að heyra aðeins vangaveltur þingmanns um það.