149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

athygli í atkvæðagreiðslum.

[20:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Hér áðan var kallað eftir því að atkvæðagreiðsla yrði endurtekin og virðulegur forseti átaldi þingmenn fyrir að fylgjast ekki með. Ég vildi bara að það kæmi hér fram að ég heyrði úr sæti mínu kallað úr þessum hluta salarins að kallað væri eftir atkvæðagreiðslu. Ég var að fylgjast með, hv. þingmaður sem kallaði eftir atkvæðagreiðslunni, hv. þingmaður sem kallaði eftir endurtekningunni var að fylgjast með og gerði það á réttum tíma. Það komst greinilega ekki til virðulegs forseta sem getur vel gerst. Ég aðstoðaði hv. þingmann með því að kalla eftir þessari endurtekningu. Ég vildi bara koma þessu til skila vegna þess að satt best að segja þreytir það mig svolítið að heyra virðulegan forseta tala við þingheim eins og um einhver óþæg börn sé að ræða, eins og þeir séu ekki að fylgjast með.

Það var ekki tilfellið í þetta sinn. Ég vildi bara að það kæmi hér fram.