154. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2024.

heimavitjun ljósmæðra.

[13:38]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar og hvet hann til að fara yfir þetta mál með sínu fólki í sínu ráðuneyti og hafa hraðar hendur.

Ég vil í síðari fyrirspurn minni víkja að frumvarpi sem við í Samfylkingunni höfum lagt fram og fjallað hefur verið um í velferðarnefnd þar sem m.a. er lagt til að lögfest verði sérstakt meðgönguorlof, að móðir eða það foreldri sem gengur með barnið geti byrjað í fæðingarorlofi á 36. viku meðgöngu án þess að sá tími komi til frádráttar fæðingarorlofi eftir að barnið fæðist. Þannig eru reglurnar í Noregi og Danmörku, þetta er það sem Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, Félag heimilislækna og Ljósmæðrafélag Íslands hafa kallað eftir. Þetta er mikilvægt heilbrigðismál því almennt er konum ráðið frá því að vera að vinna mikið lengur en fram á 36. viku. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvar er jafnréttið í því að konur þurfi að ganga á veikindarétt sinn á meðan karlar þyrftu aldrei að gera það? Hvar er jafnréttið í því? (Forseti hringir.) Vill hæstv. heilbrigðisráðherra bara hafa þetta svona áfram eða er ráðherra sammála þessum heilbrigðisstéttum sem ég nefndi hér áðan? (Forseti hringir.) Og er ráðherra sammála okkur í Samfylkingunni um að lögfesta þurfi sérstakt meðgönguorlof síðustu fjórar vikurnar fyrir settan dag?