136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:26]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um stjórnskipun lýðveldisins Íslands og eins og fram hefur komið hjá mörgum hv. þingmönnum er þetta eitt mikilvægasta mál sem getur komið fyrir hvert þjóðþing, þ.e. að ræða grundvallarlög þau sem samfélag okkar byggir á.

Áður en ég sný mér að efnisatriðum vil ég lýsa áhyggjum mínum af því hvernig að málum hefur verið staðið, þ.e. hvernig málið hefur verið fram borið af hálfu flutningsmanna þess og hvernig framgangur þess hefur verið í þingsalnum. Ég tel ekki eðlilegt að við ræðum lög um grundvallarfyrirkomulag stjórnarskipunar okkar langt fram á nætur. Ég tel að þetta sé það mikilvægt mál að hér eigi menn að hafa fundartímann eðlilegan þannig að Alþingi sé vel skipað. (Gripið fram í.) Það er ekki eðlilegt að hér séu haldnar margar bæði efnismiklar og mikilvægar ræður sem skipta máli hvað varðar það sem hér er um að ræða og að einungis örfáir þingmenn séu viðstaddir og helst þá bara úr einum flokki eins og var í gærkvöldi.

Ég beini því til forsætisnefndar að menn skoði vel framhald þessara umræðna þannig að það verði meiri og betri bragur á þessu fyrir þingið. Ég held að allir þingmenn hljóti að vera sammála um þetta og í sjálfu sér er ekki erfitt að koma þessu betur fyrir. Ef við viljum halda áfram á kvöldin er það alveg eðlilegt og Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst sig fullkomlega og algjörlega tilbúinn til slíkra funda þar sem það á við. Þá væri vel við hæfi að við tækjum fyrir þau mál sem snúa að heimilunum í landinu og að atvinnulífinu, ræddum þau þegar umræðum um stjórnarskrána væri lokið á daginn og héldum svona áfram þar til öll þau mál sem skipta máli fyrir atvinnulífið og heimilin væru fram komin og gætum síðan í framhaldinu einbeitt okkur að þessu mikla og mikilvæga máli sem hér er til umræðu.

Það er líka annað sem mig langar að nefna. Það hefur nokkuð borið á því hér í umræðu að vegna þeirra hörmungaratburða sem urðu í efnahagslífinu sé nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni. Ég skil í sjálfu sér þá umræðu. Þegar mikið gengur á eins og hér hefur gerst leita menn á alla staði og spyrja sjálfa sig hvað þeir geti gert betur. Hverju þurfum við að breyta í samfélagi okkar til þess t.d. að slíkir atburðir endurtaki sig ekki? Það er þar með eðlilegt að menn velti fyrir sér stjórnarskránni.

Á móti kemur það sem ég held að menn verði líka að hafa í huga, þegar gríðarlegt umrót er í samfélagi eins og hefur verið í okkar samfélagi kennir sagan okkur, og um það eru fjölmörg dæmi úr ríkjum bæði nær og fjær, að einmitt þegar hlutirnir fara jafnmikið upp í loft og gerst hefur á Íslandi skiptir máli að kjölfestan, grunnurinn undir samfélaginu, stjórnarskráin, sé það akkeri sem tryggir að við komumst í gegnum umrótið saman sem samfélag án þess að gefa frá okkur þau grundvallargildi sem einmitt hefur tekið svo langan tíma að berjast fyrir, sem hefur tekið svo langan tíma að móta og mynda og hafa gefið svo góða raun, ekki bara í okkar samfélagi heldur öllum hinum vestrænu samfélögum sem við miðum okkur við.

Þess vegna tel ég t.d. að í umræðunni um stjórnlagaþing þar sem á að taka alla stjórnarskrána og velta henni upp verði menn að hafa í huga að slíkt stjórnlagaþing eitt og sér skapar heilmikla óvissu þar sem menn vita þar með ekki nákvæmlega hver stjórnarskráin verður í framhaldinu, hvaða grundvallarréttindi verða varin, hver þá ekki o.s.frv. Öll óvissa á þessum tímum er af hinu verra.

Ég er þó ekki þeirrar skoðunar að það sé alslæm hugmynd að setja upp stjórnlagaþing. Það er í sjálfu sér vel hægt að hugsa sér slíkt fyrirkomulag en þó tel ég nauðsynlegt að Alþingi sé miðpunktur þessa, þ.e. að löggjafarvaldið fari ekki héðan. Slíkt stjórnlagaþing gæti þá verið ráðgefandi og niðurstöður þess þings kæmu hingað inn á Alþingi til áframhaldandi meðferðar.

Þetta tel ég mikilvægt því að mér finnst stundum eins og menn tali eins og Alþingi sé samkoma sem hafi ekki það beina samband við þjóðina sem þurfi svo hægt sé að treysta því fyrir stjórnarskrárbreytingum. Þetta er auðvitað alrangt. Mjög mikilvægar og veigamiklar breytingar hafa verið gerðar á stjórnarskránni, einmitt í sölum Alþingis, sem síðan hafa verið samþykktar, t.d. breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar sem gerðar voru árið 1995. Þær skiptu miklu máli. Tel ég að Alþingi hafi þar sýnt að það er vel fært um að vinna slíkt mál af vandvirkni þannig að samstaða sé um niðurstöðuna. Ef ekki er samstaða um stjórnarskrána og þau grundvallargildi sem þar birtast er voðinn vís í samfélaginu. Þess vegna fara menn mjög varlega og vandlega og vanda sig mjög mikið þegar stjórnarskrá er breytt.

Það er ekki hægt annað en að hafa af því áhyggjur hvernig menn hafa farið hér fram á undanförnum vikum hvað varðar stjórnarskrána. Það kemur mjög berlega fram í þeim umsögnum sem bárust um þetta verklag allt saman, efni og innihald að mjög margir málsmetandi aðilar hafa áhyggjur af því hvernig hefur verið staðið að þessari vinnu.

Almennt séð má kannski segja að stundum komi sú staða upp í löggjafarstarfinu að menn þurfi að hafa hraðar hendur og kannski fylgja ekki í öllu bestu viðmiðunum vegna þess að nauðsyn krefur að menn séu fljótir að afgreiða lög vegna þess að bregðast þurfi við einhverjum bráðum vanda. Þegar kemur að stjórnarskránni er ekki bara mikilvægt hvert efnisinnihald hennar er. Þá er líka mjög mikilvægt hvernig staðið er að breytingunum. Í stjórnarskránni eru fólgnar varnir fyrir okkur borgarana, bæði auðvitað gagnvart ríkisvaldinu og eins gagnvart hvert öðru. Þetta er réttindaskrá okkar, þetta er rétturinn, sú vörn sem við höfum gegn hinu sterka, vörn smælingjans gegn hinu sterka. Þetta er vörn okkar sem gerir okkur kleift að búa saman í samfélagi. Þá skiptir miklu máli að menn vandi mjög allar breytingar og geri þær rétt.

Ég hef heyrt á tal margra, bæði hér í þingsölum og annars staðar þar sem við þingmenn komum, og menn spyrja: Eruð þið þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki bara í málþófi? Reyndar bæta menn þar við, virðulegi forseti, að við græðum engin atkvæði á þessari umræðu. Ég verð að segja eins og er að ég læt mig engu varða hvort minn flokkur græðir eða tapar atkvæðum á umræðu um stjórnarskrá. Það skiptir bara ekki nokkru máli. Það sem skiptir máli er að við sinnum þeirri skyldu okkar sem við höfum svarið eið að, að verja stjórnarskrána og gera allt í okkar valdi til að tryggja að hún haldi. Þá skipta kosningar engu máli og ekki heldur skoðanakannanir eða eitthvert tal um að einhver þvælist fyrir í umræðunni.

Við sjálfstæðismenn höfum í ræðum okkar hér og í nefndarvinnu bent á að það er ýmislegt sem við höfum ástæðu til að hafa áhyggjur af varðandi þennan málatilbúnað. Þeir sem kynna sér þær umsagnir sem hafa verið settar fram um frumvarpið sjá auðvitað að það er ýmislegt sem rétt er að hafa áhyggjur af.

Ég gríp t.d. niður í umsögn Davíðs Þórs Björgvinssonar, en hann er dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Í umsögn sinni fjallar hann um greinar frumvarpsins og í athugasemd við 1. gr. segir hann, með leyfi forseta:

„Í stuttu máli, ákvæðið eitt og sér breytir sennilega engu um réttarstöðu þeirra sem nú njóta veiðiheimilda. Þó ber að árétta að þetta er flókið mál og æskilegt að nákvæm skoðun fari fram á þessu atriði og mögulegum afleiðingum ákvæðisins að þessu leyti.“

Gott og vel. Enn og aftur og til áminningar og áréttingar, hér erum við að tala um stjórnarskrána. Við erum að tala um grundvallarlög íslenska lýðveldisins. Hér talar maður sem hefur yfirgripsmikla þekkingu á því sem um er fjallað þótt ég geti bent á fræðimenn sem eru ekki sammála honum um einstök atriði sem ég mun koma að. Það hlýtur þó að vera athugunarvert fyrir þá sem bera ábyrgð á þessu máli í þingsölum að Davíð Þór Björgvinsson segir í áliti sínu:

„Þó ber að árétta að þetta er flókið mál og æskilegt að nákvæm skoðun fari fram á þessu atriði og mögulegum afleiðingum ákvæðisins að þessu leyti.“

Ef eðlilega væri staðið að málum, ef við ynnum þessa vinnu eins og skylda okkar býður værum við búin að fara nákvæmlega í gegnum þessar athugasemdir og afleiðingarnar og gerðum okkur grein fyrir þeim þannig að engin deila væri um það áður en við settum svona ákvæði í stjórnarskrána. Það er ekki bara af því að þetta er stjórnarskráin. Þetta snýr að aðalatvinnuvegi landsmanna, akkúrat þessi umræða, akkúrat spurningin um eignarréttinn á veiðiheimildunum o.s.frv. Þetta er gríðarlegt efnahagslegt atriði fyrir okkur Íslendinga. Það að búa til óvissu um þetta er hlutur sem ég er a.m.k. feginn að bera ekki ábyrgð á.

Svo við víkjum aftur að umræðunni um einstök ákvæði gerði ég við 1. umr. að umtalsefni 1. gr. frumvarpsins sem snýr að auðlindum landsins. Mér er það mjög mikið ánægjuefni að vegna athugasemda sem komu m.a. fram hjá þeim sem hér stendur og fleirum, um ákvæði sem voru upprunalega í frumvarpinu og sneru að líffræðilegum fjölbreytileika og sjálfbærri nýtingu sem voru mjög óljós hugtök og erfitt að henda nákvæmar reiður á, virðast menn hafa ákveðið að draga í land með þetta og fara frekar í þá hugsun að í stjórnarskránni mættu einungis vera atriði sem væru þaulhugsuð og þaulniðurnegld þannig að enginn vafi léki á því um hvað væri rætt.

Þá kemur auðvitað upp sú umræða sem margir þingmenn þekkja ítarlega og vel sem snýr að hugtakinu þjóðareign og hvað það hugtak þýðir nákvæmlega. Ég vitnaði áðan í Davíð Þór Björgvinsson og sá mæti fræðimaður hefur skoðun sem kemur fram í greinargerð hans. Hann segir, með leyfi forseta:

„Í greinargerð kemur fram að hugtakið „þjóðareign“ er sérstakrar merkingar sem ekki fellur vel að hefðbundinni eignarréttarlegri merkingu. Orðanotkun að þessu leyti er ekki sérstakt vandamál, enda nægjanlega skýrt af greinargerð hvað átt er við, auk þess sem hafa má hliðsjón af þjóðlendulögunum, sbr. lög nr. 58/1998, eins og bent er á í greinargerð. Ástæða er til að taka þetta fram þar sem heyrst hafa þau sjónarmið að hugtakið sé merkingarlaust, en svo þarf ekki að vera. Því er gefin ákveðin merking með setningu ákvæðisins og lögskýringargögnum.“

Þetta er skoðun Davíðs Þórs en aðrar skoðanir ágætra fræðimanna eru líka uppi. Sigurður Líndal, lögspekingur og fræðimaður á þessu sviði, hefur aðra skoðun og telur þetta hugtak ekki nægjanlega skýrt. Ég hef fyrir framan mig athugasemdir Davíðs Þorlákssonar lögfræðings sem lúta að svipuðu þar sem hann segir um hugtakið þjóðareign að það sé „mjög óljóst hugtak“ og því sé erfitt að grípa utan um nákvæma merkingu hugtaksins. Ég gríp hér niður í umsögn hans, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi fellur þjóðareign ekki undir eignarréttarhugtakið þar sem það felst ekki einkaréttur í þjóðareign. Í öðru lagi getur þjóð ekki farið með neinar heimildir eignarréttar vegna þess að þær fela í sér einkarétt og þjóð er ekki nægjanlega afmarkaður aðili til að geta farið með þessar heimildir. Í þriðja lagi er ljóst að þjóðareign fellur ekki undir neitt almennt viðurkennt form eignarréttar. Í fjórða lagi er ljóst að þjóð getur ekki talist lögpersóna og því ekki verið eigandi verðmæta. Því er ljóst að þjóðareign getur ekki talist fela í sér eignarrétt. Þjóð verður því ekki talin geta átt eignir.“

Það er alveg rétt að mínu mati að hugtakið þjóð, ef menn velta fyrir sér hvað það er, felur í sér að menn geta verið af íslensku bergi brotnir, tilheyrt íslenskri þjóð en ekki verið búsettir á Íslandi og verið jafnvel borgarar annars ríkis en verið samt Íslendingar. Af íslensku bergi brotnir. Af íslenskri þjóð. Þá er vandséð hvernig menn sjá fyrir sér slík eignarréttindi og hvernig með skuli fara. Það er vont að við séum að setja inn í stjórnarskrána ákvæði sem augljóslega í mínum huga er til þess fallið að vekja deilur og vafa um hvað átt sé við í stjórnarskránni.

Auðvitað geta menn ekki tryggt að svo verði ekki. (Gripið fram í.) Að mínu mati er a.m.k. skýrt að ef menn hafa fyrir því rökstuddan grun að vafi leiki á hugtakinu ættu þeir sem vildu sinna starfi sínu af ábyrgð og virða það heit sem menn hafa unnið að stjórnarskránni að vera búnir að gefa sér nægilegan tíma til að komast að niðurstöðu um hvað er nákvæmlega átt við þannig að menn ýfi ekki upp deilur og búi til óvissu í landinu.

Það leiðir reyndar hugann að öðru sem er allt að því furðulegt við þetta mál. Við erum að fást hér við nokkrar tillögur um breytingar á stjórnarskránni og ein af þeim er sú að við setjum á laggirnar sérstakt stjórnlagaþing. Tillagan virðist vera á þeirri forsendu að menn líti svo á að Alþingi Íslendinga geti ekki sinnt þessu mikilvæga starfi sínu, þ.e. að vera stjórnarskrárgjafinn. Gott og vel, það kann að vera skoðun en þess vegna er undarlegt að sömu aðilar og hafa þessa skoðun telja samt sem áður ástæðu til að gera sérstaklega þessar breytingar á stjórnarskránni. Ég hef ekki heyrt frá neinum af þessum flutningsmönnum neina sérstaklega góða útskýringu á því að úr því að menn telja að þingið hafi ekki burði til að breyta stjórnarskránni og nauðsynlegt sé að kalla saman sérstakt stjórnlagaþing hvers vegna það sé þá bara ekki gert og því stjórnlagaþingi falið að gera þær breytingar sem alþingismenn geta ekki gert.

Í þessu er fólgin alveg furðuleg þversögn og aldeilis óskiljanleg. Sérstaklega finnst mér það merkilegt af hálfu hv. þingmanna Framsóknarflokksins, (Gripið fram í: Já.) góðs flokks sem mér er um margt mjög kær eftir margra ára og gott samstarf við þann flokk, að þingmenn þess flokks voru þeirrar skoðunar fyrr í vetur að þeir hefðu ekki nægilegt umboð frá þjóðinni til að taka sæti sem ráðherrar í ríkisstjórn og vildu því sitja hjá, fela öðrum ráðherradóminn og veita einungis vörn gegn vantrausti en það skuli síðan falla í skaut eins af hv. þingmönnum þess flokks að vera einn helsti talsmaður þessara breytinga á stjórnarskránni. Það er svolítið undarlegt að hafa dæmt sjálfan sig í þá stöðu að hafa ekki umboð til að taka sæti í ríkisstjórn og leggja til að sérstakt stjórnlagaþing verði sett á laggirnar vegna þess að þingið hafi ekki möguleika til að breyta stjórnarskránni og leggja síðan til að breytingar verði gerðar á stjórnarskránni, mikilvægar breytingar sem því miður er augljóst að eru þannig úr garði gerðar að það er deila um hið mikilvæga hugtak sem er sett þarna inn, þjóðareign. Fræðimenn greinir á um hvort þetta hugtak hafi yfir höfuð merkingu. (Gripið fram í: Styrmir …) Ég reikna með að hv. þingmaður sé að vísa í Styrmi Gunnarsson, fyrrverandi Morgunblaðsritstjóra, frekar en bróður minn, Styrmi Gunnarsson laganema. Sé um að ræða ritstjórann ágæta kann það vel að vera. Hann er maður í að skýra sjónarmið sín og þó að um sé að ræða mikilhæfan og góðan mann er ekki þar með sagt að maður sé sammála öllu sem hann segir. (Gripið fram í.)

Síðan hlakka ég til að heyra athugasemdir hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar þingflokksformanns um þetta og vænti þess að þær snúi að auðlindanefndarþættinum. Öll þau sjónarmið hafa komið fram, m.a. í skýrslu auðlindanefndarinnar, og ekkert af því sem þar kom fram breytir því að þessi deila er uppi um eðli þjóðareignarhugtaksins. Þetta skiptir miklu máli. Enn og aftur, það hefði farið betur á því að við hefðum gefið okkur meiri tíma og unnið þetta þannig að einhver bragur væri að.

Ég er t.d. þeirrar skoðunar að við getum leyst þetta nokkuð auðveldlega, en það er kannski pólitískt óhentugt fyrir þá sem leggja þetta fram. Í staðinn fyrir þjóðareign væri auðvitað miklu nær að segja bara sannleikann og segja það sem menn eiga við og nota orðið ríkiseign. (Gripið fram í: Nú?) Það er það sem átt er við. Það er átt við að þetta sé eign ríkisins. Það hljómar ekki eins vel, það fer ekki eins vel í munni, (Gripið fram í: Nú?) það er skemmtilegra á pólitískum fundum þegar menn eru komnir í kjördæmin sín að tala um þjóðareignina og vona að menn kvarti ekki yfir því að það skiljist ekki hvað við er átt. Það sem átt er við er ríkiseign. Ég tel að úr því að menn eru að tala um stjórnarskrána eigi menn að segja hlutina eins og þeir eru og draga úr þeim vanda sem annars fylgir því að vera með allt að því merkingarlaust hugtak, eins og margir fræðimenn hafa bent á.

Það er ekki bara lögfræðilegur vandi sem við er að etja. (LB: Ef menn vilja ekki …) Það er nú þannig, hv. þingmaður, að það er ekki bara spurning með þann sem hér stendur og vilja hans til að búa til vanda, það kann að vera að upp rísi dómsmál, réttarágreiningur þar sem reynir á stjórnarskrána í þessum ákvæðum og þá skiptir máli að stjórnarskráin sé þannig úr garði gerð að hún leysi deilur en búi ekki til deilur, að hún leysi vanda og leysi úr óvissu en auki hana ekki og magni eins og þessi málsmeðferð og þetta hugtak hefur því miður öll efni til að gera. (LB: Alveg eins og þúsundir mála …) Þegar menn sjá vandann fyrir, hv. þingmaður, og hafa tíma til að bregðast við honum eiga menn að gera það og hví þá ekki að fara þá leið sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt mikla áherslu á, að setja þetta stjórnlagaþing á laggirnar? Hví þá ekki að segja sem svo: Gott og vel, gerum það þá og setjum alla þessa vinnu þangað? Úr því að menn telja sig svo umboðslausa að þeir geti ekki tekið sæti í ríkisstjórn telja þeir sig varla hafa umboð til að breyta sjálfri stjórnarskránni á nokkrum dögum og það með þeim aðdraganda sem hér hefur verið lýst og er ekki beint til sóma fyrir þingið. (Gripið fram í.) Ég held að það væri ráð að menn gerðu þetta svona. Síðan er það mín skoðun að slíkt stjórnlagaþing væri ráðgefandi fyrir Alþingi, stjórnarskrárrétturinn færi ekki úr Alþingi. Þetta er helgasta og mikilvægasta starfsemi þingsins og ég tel eðlilegt og við hæfi að það færi þá leiðina, enda hefur Alþingi sýnt að það hefur náð niðurstöðu í mikilvægum málum þegar það hefur komið að stjórnarskránni eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni þar sem um var að ræða breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Það er rangt sem hefur ítrekað verið haldið fram, að ekki hafi verið hægt að ná fram mikilvægum breytingum á stjórnarskránni. Það er rangt og stenst enga skoðun.

Ég vík þá aftur að 1. gr. og hvað um er að ræða þegar kemur að eignarréttinum. Auðvitað skiptir máli, ekki bara lögfræðilega það sem um er að ræða heldur hefur þetta mikla hagfræðilega merkingu. Það er vegna þess að skapist óvissa um eignarrétt og réttarstöðu manna hefur það þau áhrif að draga úr verðmætasköpun. Þetta eru fræði sem eru ekki séruppfinning okkar sjálfstæðismanna, þetta er reynsla manna víðs vegar á Vesturlöndum og sennilega alls staðar, þetta er lykilatriði í allri löggjöf og samspili löggjafar við efnahagslífið.

Hér erum við að ræða alveg sérstaklega um höfuð- og meginauðlind okkar Íslendinga, sjálfa aflvél hagkerfis okkar, sjávarútveginn. Gangi þetta fram setjum við ákvæði sem kann augljóslega að valda einhvers konar vá. Minni ég þá aftur á þau orð sem ég tiltók frá Davíð Þór Björgvinssyni, virðulegi forseti, þar sem hann veltir fyrir sér afleiðingum og áhrifum þessa ákvæðis. Hann segir: „… ákvæðið eitt og sér breytir sennilega engu um réttarstöðu þeirra sem nú njóta veiðiheimilda. Þó ber að árétta að þetta er flókið mál og æskilegt að nákvæm skoðun fari fram á þessu atriði og mögulegum afleiðingum ákvæðisins að þessu leyti.“ Hér erum við að tala um grundvöll efnahagsstarfsemi á Íslandi.

Eignarréttur þarf að vera öruggur og hann þarf að vera einkaréttur, þ.e. sé um að ræða eignarrétt og hann hafi gildi þarf sá sem nýtur hans að geta meinað öðrum notkun. Hann þarf að vera varanlegur og hann þarf að vera framseljanlegur. Þetta eru meginatriði eignarréttarins þegar menn horfa á þetta í hagfræðilegum skilningi. Allt sem dregur úr örygginu, allt sem dregur úr einkaréttinum, allt sem dregur úr varanleika og framseljanleika veldur því að eignarrétturinn nær ekki tilætluðum áhrifum, það dregur úr áhrifum hans og þar með dregur úr efnahagsstarfseminni. Þar með dregur úr þeirri auðmyndun sem verður í samfélaginu, þar með dregur úr lífskjörum þjóðarinnar, möguleikum okkar, ríkisins, til skattheimtu til að geta staðið undir skólaþjónustu, heilbrigðisþjónustu og öllum þeim hlutum sem skipta okkur svo miklu máli.

Því miður tel ég þá breytingu sem lagt er upp með hér til þess fallna að draga úr virkni séreignarréttarins eða í það minnsta, eins og Davíð Þór Björgvinsson nefnir, virðulegi forseti, að það sé ástæða til að ætla að það þurfi að skoða þetta miklu nánar til að menn hafi einhvers konar vissu, fast land undir fótum.

Enn á ný verð ég að segja að ég er feginn að þurfa ekki að bera ábyrgð á þessum vinnubrögðum þegar viðvaranir virtra fræðimanna liggja fyrir akkúrat um þessa þætti. (Gripið fram í: Það eru fræðimenn til sem segja hið gagnstæða.) Það eru fræðimenn sem segja þó hið gagnstæða en ég minni á að sá fræðimaður sem ég nefni er í hópi þeirra sem telur að þjóðareignarhugtakið hafi merkingu. Hann er í hópi þeirra fræðimanna sem hv. þingmaður hefur sennilega í nokkru uppáhaldi sökum þeirrar skoðunar, en meira að segja fræðimaðurinn sem nefnir að það megi reikna með að hægt sé að fá einhvers konar merkingu út úr þjóðareigninni varar alveg sérstaklega við og segir: Það er óljóst hver réttaráhrifin verða, það þarf að kanna málið betur. Ég ætla ekki að nefna hvað hinir segja sem telja að hugtakið hafi ekki merkingu.

Þó að mörgum hafi verið séreignarréttarkerfið þyrnir í augum í gegnum tíðina er það samt grundvöllur þess að hægt sé að stunda einhvers konar uppsöfnun auðmagns og það er líka grundvöllur verkaskiptingar og sérhæfingar. Þetta tvennt er algjört lykilatriði í öllum hagkerfum og öllum samfélögum. Samfélög sem ná ekki að gera rétt þetta tvennt, að það sé hægt að safna saman auði og nýta hann, hann sé varanlegur og hægt að koma honum til vinnu, og samfélög þar sem verkaskipting og sérhæfing ná ekki fram að ganga verða fátæk samfélög. Þess vegna látum við okkur varða ákvæði í stjórnarskrá landsins sem snúa að eignarréttinum. Þetta er algjört grundvallaratriði. Ef vafi leikur t.d. á um eignarréttinn á aflaheimildum sjá menn í hendi sér hvaða afleiðingar það hefur fyrir íslenskan sjávarútveg. Í fyrsta lagi gerir þetta það að verkum að t.d. kaup og sala á slíkum eignum verður óvissu háð, menn vita ekki hvað þeir eru að kaupa, menn vita ekki nákvæmlega hvernig á verður haldið í framtíðinni. Það gerir það að verkum að verðmætin rýrna.

Nú mundu sumir glepjast til þess að halda að það væri betra að verð á aflaheimildum lækkaði. Að því gefnu að ekki sé um að ræða einhvers konar markaðsmisnotkun endurspeglar verð á aflaheimildum í sölu á milli manna ekkert annað en framtíðarhorfur í sjávarútvegi, hversu mikils megi vænta að menn geti haft upp úr krafsinu af starfsemi í þeirri grein. Það að búa til þennan efa getur valdið skaða hvað þetta varðar. Það veldur líka skaða vegna þess að í ljósi efans er ólíklegra að menn ráðist í nýjungar og nýsköpun í greininni.

Hvernig á að halda um þar sem um er að ræða nytjastofn, við skulum segja nytjastofn sem ekki hefur áður talist til slíkra stofna, sem ekki hefur verið nýttur áður eða lítt nýttur, þegar einkaaðili leggur fram bæði fé og tíma og tekur áhættu með fé sitt til að gera eitthvað nýtt, til að nýta auðlindina? Ef viðkomandi einstaklingi tekst vel til, ef tilraunin tekst, fyrirtækið lifir og hægt er að nýta auðlindina kemur ríkið og segir: Við eigum auðlindina, við eigum þennan stofn. Þar með er óvissa um það hvernig síðan verður haldið á með framhaldið, hvernig skattlagningu verður hagað eða áframhaldandi aðgengi. Allir þessir þættir eru til þess fallnir að draga úr mönnum viljann til að reyna að finna nýjar leiðir til að nýta auðlindirnar. Það sem meira er, ef mönnum mistekst, ef menn fara á hausinn og verða gjaldþrota við æfingar við að reyna að finna nýjar leiðir til að nýta auðlindirnar, hleypur ríkið ekki undir bagga og segir: Við virðum það mjög við þig að þú varst að reyna að finna nýjar leiðir til að nýta auðlindirnar, það gekk ekki upp og við teljum ósanngjarnt að þú berir allan kostnaðinn sjálfur. Að sjálfsögðu ekki. Menn verða bara gjaldþrota. Ef gengur vel bætist við sú óvissa hvernig ríkið muni á halda.

Þetta er ekki gott fyrir samfélag sem á allt sitt undir því að nýta vel náttúruauðlindirnar, sérstaklega auðlindir hafsins. Það er ekki skynsamlegt fyrir okkur að setja einhvers konar regluverk, lög, ég tala nú ekki um í stjórnarskrána, sem eru þess eðlis að draga úr framkvæmdavilja og þrótti landsmanna til að nýta auðlindir. Það er ekki skynsamlegt. Það kann að vera að menn segi: Hvernig í ósköpunum má það vera að jafnsaklaust orð og þjóðareign geti valdið slíku? Það er vegna þess vafa sem ég rakti áðan, vegna þess vafa sem Davíð Þór Björgvinsson nefnir og aðrir lögspekingar líka.

Ég sé og heyri að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson horfir á mig furðuaugum og ég skal bara útskýra fyrir honum nákvæmlega hvað hér er átt við. Það er þetta sem ég las áðan (Gripið fram í.) og Davíð Þór Björgvinsson nefnir. Ég les þetta í þriðja sinn þannig að þingmaðurinn megi skilja fullkomlega hvað hér er átt við, með leyfi forseta, enn og aftur:

„Í stuttu máli, ákvæðið eitt og sér breytir sennilega engu um réttarstöðu þeirra sem nú njóta veiðiheimilda. Þó ber að árétta að þetta er flókið mál og æskilegt að nákvæm skoðun fari fram á þessu atriði og mögulegum afleiðingum ákvæðisins að þessu leyti.“

Þegar menn eru búnir að átta sig á því hvaða afleiðingar það getur haft sem hljómar kannski sakleysislega, þjóðareign, sem væri þá í raun ríkiseign, eykur það óvissu eins og prófessorinn nefnir sérstaklega. Þá koma strax þau áhrif sem ég rakti áðan. Ég held að það síðasta sem samfélag okkar þarf á að halda sé aukin óvissa í efnahagsstarfseminni. Ég held að það sé það allra síðasta.

Úr því að hv. þingmaður Framsóknarflokksins, sem um margt hefur lagt svo gott til málanna í þingsölum á sínum ferli, sem hefur fengið það hlutverk að bera þetta mál fram fyrir hönd sérnefndar, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, er hér vil ég nefna að það væri áhugavert að heyra frá henni, að hún notaði tækifærið í andsvörum til að útskýra fyrir okkur hvers vegna hennar ágæti flokkur tekur ekki bara þá ákvörðun að segja: Þetta ákvæði samþykkjum við ekki. Ef við samþykkjum þetta stjórnlagaþing verður þetta bara tekið fyrir þar með öðrum ákvæðum og annarri umræðu um stjórnarskrána, — úr því að menn telja sig ekki einu sinni bæra til að setjast í ríkisstjórn af því að þeir hafi ekki nægilegt umboð. Við það gekk hv. þingmaður úr salnum. Við sjáum til.

Ég vil að lokum máls míns árétta og ítreka að það kann vel að vera að einhverjum þyki sem við sjálfstæðismenn ættum að spara ræðutíma okkar, við ættum ekki að beita okkur hart í þessu máli vegna þess að það gæti verið til vinsælda fallið. Ég fullyrði enn og aftur að það skiptir bara engu máli fyrir okkur þingmenn Sjálfstæðisflokksins hvort þetta færir okkur atkvæði eða ekki. Við höfum svarið eið að stjórnarskránni. Við erum í stjórnmálum vegna þess að við höfum sannfæringu, við höfum pólitískar skoðanir og það er lítill bragur að því að nálgast umræðu um stjórnarskrána með þeim hætti sem hér hefur verið gert og lítil von til þess að virðing þingsins vaxi við slíkt.

Ekki er öll nótt úti enn. Hér situr þó einn í salnum af hálfu minnihlutastjórnarinnar, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Ég hef mikinn áhuga á að heyra skoðanir hans á þeim málflutningi sem fer fram í þingsölum. Margar ágætar ræður hafa verið fluttar bæði í dag og í gærkvöldi en því miður höfum við lítt heyrt skoðanir þeirra sem styðja minnihlutastjórnina á þeim málflutningi. Við vorum svo óheppin að missa hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur út úr salnum aftur þannig að ég á ekki von á að fá svör við þeim spurningum sem ég nefndi áðan en það væri áhugavert að heyra skoðanir hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar á málinu ef hann hefur tök á.

Ég tel að þó að það þýddi að við værum í þingsölum fram undir kosningar að ræða þessi mál sé þeim tíma vel varið, en ég óska eftir ítarlegra og meira framlagi þeirra sem styðja minnihlutastjórnina í þessari mikilvægu umræðu þannig að þegar horft verður til þess síðar hafi þeir bjargað heiðri sínum vegna þess að menn munu auðvitað reka augun í það hversu æpandi þögn hefur verið hjá þeim þingmönnum sem styðja þessa minnihlutastjórn í þingsölum í umræðu um breytingar á stjórnarskránni og við þær aðstæður sem nú eru í samfélaginu, umræðu sem hefði átt að vera innihaldsrík af hálfu minnihlutastjórnarmanna, gagnleg og til þess fallin að bæta og styrkja stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Það er enn tími til að taka þátt í umræðunni, það er enn tími til að sýna Alþingi og stjórnarskránni þá virðingu. Í liði minnihlutastjórnarinnar eru margir ágætir hv. þingmenn sem hafa vit á þessum málum. Enn á ný beini ég því máli mínu, virðulegi forseti, til formanns þingflokks Samfylkingarinnar og hvet til að menn reki af sér slyðruorðið og komi hér upp og taki þátt af fullum krafti í þessum umræðum.