136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:19]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þó að umræðan sé búin að vera nokkuð löng og ítarleg hefur hún engu að síður verið mjög athyglisverð um þetta mikla mál og eftir því sem ræðurnar hafa orðið fleiri sem ég hef hlustað á, þeim mun sannfærðari er ég um að það er vissulega mikið mál að breyta stjórnarskrá. Þess vegna þarfnast þetta frumvarp ítarlegrar umræðu á Alþingi og ekki síður úti í samfélaginu. Þjóðfélagsumræðan hefur hvorki verið nægilega mikil né hreinskiptin og ég er ekki sannfærð um að fólkið í landinu viti um hvað þetta mál snýst nákvæmlega eða hvaða afleiðingar stjórnlagaþingið hefur í för með sér.

Þess vegna vekur furðu sá stutti tími sem ætlaður er til að vinna nú þessar stjórnarskrárbreytingar. Það hefur margoft komið fram í umræðunni að þegar stjórnarskránni hefur verið breytt á undanförnum áratugum hefur jafnan verið gefinn góður tími í þinginu til að undirbúa breytingarnar. Bent hefur verið á að oftast hafi verið langur aðdragandi í nefndarstarfi áður en frumvarp er lagt fram, síðan hafi ávallt verið gefinn góður tími í þinginu og ekki anað að neinu í þessum efnum.

Nú bregður svo við að það á að keyra stjórnarskrárbreytingar í gegnum þingið á skömmum tíma og án þess að sátt sé um það við stærsta flokkinn á þingi. Ég vil vitna í umsögn Ragnhildar Helgadóttur, prófessors við Háskólann í Reykjavík, en hún víkur einmitt að þessu atriði í umsögn sinni til nefndarinnar. Þar segir, með leyfi forseta, „að það væri afar óheppilegt ef nú yrði vikið frá þeirri hefð að breið samstaða allra flokka sé um breytingar á stjórnarskrá. Eins og menn vita hafa einungis tvisvar, frá fullveldi 1918, verið gerðar breytingar á stjórnarskrá í andstöðu við heilan stjórnmálaflokk … Síðasta dæmi um þetta var 1959.“ Hún segir „að með því að naumur meiri hluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran stjórnmálaflokk sé stjórnarskráin færð inn í hringiðu stjórnmálanna. Þess má þá vænta að næsti meiri hluti geri þær breytingar sem honum hugnast án þess að takmarka sig við það sem næst almenn sátt um á þingi og þannig koll af kolli. Þannig getur stjórnarskráin orðið óstöðugri og pólitískari en verið hefur, sem er óæskileg þróun“ eins og prófessorinn segir.

Sérfræðingar og samtök sem leitað hefur verið umsagnar hjá í meðförum málsins á Alþingi eru nánast öll á einu máli um það að málið sé ekki fullunnið og að tíminn sem gefinn hafi verið til umsagnar og umræðu sé of naumur. Er nema von að maður spyrji hvort það sé nokkuð annað en eðlileg krafa að þeir stjórnmálaflokkar sem starfa á þingi nái samkomulagi um þær breytingar sem nú verða gerðar.

Virðulegi forseti. Ég tek undir með félögum mínum um að einu raunhæfu breytingarnar sem gera á fyrir kosningar sé að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar þannig að ekki þurfi að rjúfa þing og fá endurnýjað samþykki Alþingis til að stjórnarskrárbreytingarnar taki gildi og skapa þannig svigrúm fyrir vandað verklag.

Það frumvarp sem við erum að ræða hér, virðulegi forseti, og svo mikill tími hefur farið í — sem ég vil þó taka fram að er alveg nauðsynlegt þegar um svo mikið mál er að ræða eins og að breyta stjórnarskrá — hjálpar ekki fjölskyldunum í landinu sem geta jafnvel ekki lengur greitt af fasteignalánum sínum eða fyrirtækjum sem standa frammi fyrir því að segja upp starfsfólki og horfa fram á gjaldþrot eins og svo margar fjölskyldur gera um þessar mundir. Heimilin hrópa á aðgerðir nú þegar.

Skilningur minn var að sú ríkisstjórn sem situr í skjóli Framsóknarflokksins hefði verið mynduð til að vinna að nauðsynlegum aðgerðum til að bjarga heimilunum og fyrirtækjunum í landinu. Mér er því alveg óskiljanlegt að helsta forgangsmálið sé að keyra í gegnum þingið á örskömmum tíma breytingar á stjórnarskrá í andstöðu við einn af flokkunum á þingi. Væri ekki nær að eyða þeim stutta tíma sem eftir er af þinginu fyrir kosningar til að ræða þær brýnu aðgerðir sem þarf að fara í heimilunum og fyrirtækjunum til bjargar? Eru kannski ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn sem styður ríkisstjórnina að skjóta reyksprengjum til að fela vanmátt sinn í að koma með slíkar aðgerðir sem heimilin og fyrirtækin geta sætt sig við? Það er ekkert í þessari stjórnarskrárbreytingu svo aðkallandi að það geti ekki beðið nýs þings.

Hér bíða mikilvæg mál eftir að komast til umræðu eins og margoft hefur komið fram í dag og í gær, eins og frumvarpið um fjárfestingarsamninginn vegna álversins í Helguvík sem skiptir gífurlegan fjölda einstaklinga og fjölskyldna á Suðurnesjum og víðar, jafnvel um allt land, afar miklu máli. Nái það mál fram að ganga þýðir það aukna atvinnu á byggingartímanum og fjölmörg ný störf þegar álverið tekur til starfa í áföngum. Jafnframt skapar framkvæmdin snúning í hagkerfinu sem okkur sem þjóð er nauðsynlegur á þessum tíma. Nei, ég held að það væri eðlilegra að við ræddum það mál af fullri alvöru.

Atvinnuleysi er hið mesta böl hvers einstaklings. Því þarf að skapa ný atvinnutækifæri hér á landi og það gerist m.a. með nýju álveri í Helguvík. Það gefur fólki von ef við á Alþingi afgreiðum frumvarpið um fjárfestingarsamninginn sem fyrst. Það er nokkuð sem fólk skilur mun betur en ástæðu þess að við ræðum í langan tíma breytingar á stjórnarskrá nú þegar þjóðin hefur gengið í gegnum miklar þrengingar.

Virðulegi forseti. Mér er spurn: Hvað var það í bankahruninu sem hefur með það að gera að það þyki nauðsynlegt að gera nú breytingar á stjórnarskrá? Í máli hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur kom fram að eftir allar þær hremmingar sem þjóðin hefur gengið í gegnum undanfarið þarf nýtt upphaf, nýja stjórnarskrá. Eru þá stjórnarskrárbreytingarnar ætlaðar til björgunar heimilum og fyrirtækjum sem eru í miklum vandræðum í dag? Er þetta þess vegna nauðsynleg aðgerð? Er nema von að spurt sé? Í nefndaráliti minni hluta sérnefndarinnar er vikið að þessu atriði þar sem minni hlutinn leggur ríka áherslu á að engin rök séu fyrir því að rýra stöðu Alþingis og taka af því stjórnarskrárgjafahlutverkið. Að tengja slíka ráðstöfun bankahruninu er fráleitt og til þess eins fallið að villa mönnum sýn um hvað þá gerðist. Þá er það í hrópandi mótsögn við þá orðræðu sem hefur farið hátt undanfarið, að styðja þurfi við Alþingi og styrkja það sem handhafa löggjafarvalds, að svipta það hlutverki stjórnarskrárgjafa. Lýsir minni hlutinn undrun yfir því að hv. þingmenn telji sér sæma að sýna sögu og hlutverki Alþingis slíkt virðingarleysi. Benda má á að hvarvetna í hinum vestræna heimi er stjórnarskrárvaldið hjá þjóðþingi viðkomandi ríkis þótt útfærslan sé að sjálfsögðu afar mismunandi.

Virðulegi forseti. 3. gr. frumvarpsins er um að Alþingi skuli láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin lög eða málefni sem varða almannahag ef 15 af hundraði kjósenda krefjast þess. Atkvæðagreiðslan skal fara fram innan þriggja mánaða frá því að staðfest krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu liggur fyrir.

Í nefndaráliti minni hluta sérnefndar kemur fram að 3. gr. frumvarpsins hafi ekki verið rædd til hlítar í nefndinni. Mörg atriði þess eru óljós og óskýr, einkum þá hvað fallið getur undir skilgreininguna „tiltekin lög“ eða „málefni sem varðar almannahag“. Umsagnaraðilar gera ýmsar athugasemdir við aðra þætti ákvæðisins, t.d. er hlutfallið 15 af hundraði umdeilt.

Samband íslenskra sveitarfélaga lýsir áhyggjum af þessu ákvæði. Ég gríp hér niður í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem segir:

„Í 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um þjóðaratkvæðagreiðslu að frumkvæði þjóðarinnar. Í því felst að tiltekinn hluti kjósenda getur kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem samþykkt hafa verið eða um tiltekið málefni sem varðar almannahag. Ákvæðið gerir ráð fyrir að 15% kosningarbærra manna geti knúið fram slíka atkvæðagreiðslu. Þetta hlutfall er mjög lágt en hafa ber í huga að hér á landi ríkir fulltrúalýðræði og er þjóðkjörnum fulltrúum falið löggjafarvaldið á Alþingi. Mikil umræða hefur verið um að löggjafarvaldið standi höllum fæti gagnvart framkvæmdarvaldinu en sú tillaga sem hér er lögð fram, þ.e. að tiltölulega lítill hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög eða málefni sem Alþingi hefur þegar samþykkt, er til þess fallin að draga enn frekar úr áhrifum löggjafarvaldsins. Nái breytingin fram að ganga er hætta á því að mikil réttaróvissa kunni að skapast, m.a. um gildistöku nýrra laga enda kemur ekki fram hve langur tími má líða frá samþykkt laga þangað til krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu er lögð fram.

Mikill kostnaður felst í þjóðaratkvæðagreiðslum, þannig væri nauðsynlegt að fram færi ítarleg kynning á því máli sem lagt er til þjóðaratkvæðagreiðslu auk þess sem mikill kostnaður er fólginn í framkvæmd slíkrar kosningar. Má í því sambandi benda á að alþingiskosningar kosta u.þ.b. 100 milljónir króna og má ætla að kostnaður við þjóðaratkvæðagreiðslu yrði sambærilegur. Af þessum sökum og með hliðsjón af þeirri réttaróvissu sem þjóðaratkvæðagreiðsla um samþykkt lög frá Alþingi skapar má verulega draga í efa hvort forsvaranlegt sé að 15% kosningarbærra mann geti með bindandi hætti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Í þessari ítarlegu umsögn Sambandsins koma einnig fram áhyggjur þeirra af kostnaðinum sem af þjóðaratkvæðagreiðslu hlýst. Það má spyrja spurningarinnar: Hver á að bera kostnaðinn sem hlýst af þjóðaratkvæðagreiðslu? Varla er ætlast til að sveitarfélögin í landinu taki þann kostnað á sig eins og staða þeirra er í dag. Eins og við allar kosningar má búast við að sveitarfélögin sæju um framkvæmdina vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar og því þyrfti að tryggja að kostnaðurinn lenti ekki á sveitarfélögunum heldur væru þjóðaratkvæðagreiðslur um einstök frumvörp og málefni á kostnað ríkisins eins og alþingiskosningar.

Í umsögn Samtaka atvinnulífsins koma einnig fram áhyggjur af þjóðaratkvæðagreiðslum. Með leyfi forseta vil ég grípa niður í umsögn Samtaka atvinnulífsins um þjóðaratkvæðagreiðslur:

„Þjóðaratkvæðagreiðslur eru ávallt vandmeðfarnar. Tillaga frumvarpsins um að kjósendur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin lög eða málefni vekur því áhyggjur enda er slíkt fyrirkomulag ekki til þess fallið að auka stöðugleika og réttaröryggi. Heimild frumvarpsins til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu er afar rúm og getur því haft lamandi áhrif á ákvarðanir og afgreiðslu þings og stjórnvalda. Þess ber að gæta að með nútímatækni er afar auðvelt að ná til 30 þúsund manna ef svo ber undir og safna í framhaldi af því undirskriftum þeirra. Í ljósi þessa og þess að engin reynsla er af slíku fyrirkomulagi hér á landi né dæmi um viðlíka opna heimild í nágrannalöndum okkar ætti að takmarka þjóðaratkvæðagreiðslu við mál sem hafa afgerandi þýðingu fyrir þjóðina og a.m.k. 20% kjósenda gera kröfu um. Annars er hætt við að þessi heimild dragi úr þeirri festu og stöðugleika sem atvinnulífi og öllum almenningi er nauðsynlegur og er undirstaða efnahagslegra framfara.“

Í umsögn Samtaka atvinnulífsins sem ég vitnaði í koma fram áhyggjur um að afar auðvelt sé að ná til 30.000 manna með nútímatækni til að ná í undirskriftir þeirra til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er vissulega tilefni til að hafa áhyggjur af þessu atriði og það virðist meiri hluti sérnefndarinnar einnig hafa því að aðferðinni er lýst í nefndarálitinu þar sem meiri hlutinn leggur áherslu á að stuðnings við að tiltekið mál fari til þjóðaratkvæðagreiðslu sé aflað með lögbundnum og tryggum hætti þannig að sá sem styður slíka kosningu geri sér að fullu grein fyrir því um hvaða mál sé að ræða. Meiri hlutinn telur því eðlilegt þegar undirskriftum er safnað um tiltekið mál að það verði gert þannig að sá sem skrifar undir slíkt skjal þurfi að mæta á tiltekinn stað þar sem hægt sé að sannreyna og votta undirskrift hans, enda segir í ákvæðinu að krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu skuli vera staðfest. Í því skyni má hugsa sér að kveðið verði á um að undirskriftalisti liggi frammi hjá opinberum aðila, til að mynda hjá sýslumanni eða starfsstöð sveitarstjórnar.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst þessi aðferðafræði mjög flókin og ég hreinlega skil hana ekki alveg. Hér á landi er engin reynsla af fyrirkomulagi eins og þessu og einmitt þess vegna ætti að vera enn frekari ástæða til að flýta sér hægt í þessum málum.

4. gr. frumvarpsins fjallar um stjórnlagaþing og er hugmyndin sú að stjórnlagaþing skipi 41 þjóðkjörinn fulltrúi og jafnmargir til vara. Stjórnlagaþing á að hafa það hlutverk að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Lagt er til að kosið verði til stjórnlagaþings samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2010 og þingið komi saman 17. júní það ár og ljúki störfum eigi síðar en 17. júní 2011, þ.e. ári síðar.

Hugmyndin um stjórnlagaþing hljómar alveg ágætlega í mínum eyrum, a.m.k. þegar maður veit ekki hvað liggur að baki þeirri hugmynd. Þegar málið er hins vegar skoðað betur er beinlínis verið að ýta lýðræðislega þjóðkjörnum fulltrúum til hliðar. Með þessu tel ég að verið sé að leggja áherslu á þá gjá sem hefur verið á milli þings og þjóðar. Í rauninni erum við með þessu að taka undir þá umræðu í þjóðfélaginu að þingmönnum sé ekki treystandi til að vinna þau störf sem þeir eru kjörnir til. Það er ekki af hinu góða því að við eigum að gæta virðingar Alþingis í öllu sem við gerum.

Ég tek undir það að hér verði ráðgefandi stjórnlagaþing með einhverjum hætti sem menn koma sér saman um sem ég tel mun heillavænlegra til að ná sáttum með þjóð og þingi í þeirri samvinnu sem í því felst. Um þetta atriði er fjallað í ágætri umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga en þar segir, með leyfi forseta:

„Þær breytingar sem felast í 2. og 3. gr. frumvarpsins eru til þess fallnar að draga mjög úr áhrifum og sjálfstæði Alþingis. Eru þessar breytingar því í miklu ósamræmi við þær kröfur sem uppi hafa verið í þjóðfélaginu um að styrkja þurfi löggjafarvaldið og efla sjálfstæði þess. Sá mikli kostnaður sem óhjákvæmilega fylgir ákvæðum 3. og 4. gr. er einnig áhyggjuefni í þeim miklu efnahagsþrengingum sem þjóðin glímir nú við.“

Virðulegi forseti Veit almenningur í landinu um hvað stjórnlagaþing snýst? Hefur umræðan um stjórnlagaþing verið það mikil í þjóðfélaginu að allur almenningur hafi fulla sýn á það sem lagt er til? Ég dreg það stórlega í efa, virðulegi forseti. Ég hef spurt fólk sem ég tel að fylgist nokkuð grannt með hinni pólitísku umræðu um vitneskju þess um stjórnlagaþing og hvað eigi að gera á því. Svörin hafa verið mjög misjöfn. Mér hefur fundist nokkuð algengt að fólk haldi að um sé að ræða nokkurs konar íbúaþing, eins og sveitarfélögin í landinu hafa lagt áherslu á að halda með þátttöku íbúanna. Nokkur sveitarfélög hafa stigið skref í átt til íbúalýðræðis með góðum árangri undanfarin ár og hafa stjórnendur sveitarfélaga áttað sig á mikilvægi þess að taka ákvarðanir í samráði við íbúana. Með virku þátttökulýðræði eiga íbúar möguleika á að koma að ákvarðanatökuferli, stefnumótun og geta haft mótandi áhrif á nærumhverfi sitt í samstarfi við sveitarfélagið auk þess sem sveitarfélög hér hafa náð langt á sviði rafrænnar stjórnsýslu og gefið íbúum sveitarfélaga kost á að skrá sig á gagnvirkan vef og hafa þannig góðan aðgang að stjórnsýslunni.

Árangur á sveitarstjórnarstiginu á þessu sviði kallar auðvitað á að færa íbúalýðræðið á annað stig og því er ég sammála. Ég tel að ráðgefandi stjórnlagaþing svari kalli fólksins um breytingar og kröfum um beina þátttöku.

Ég verð að segja að miðað við þá umræðu sem verið hefur um stjórnlagaþingið og þær kröfur sem verið hafa uppi mætti ætla að um væri að ræða stjórnlagaþing höfuðborgarsvæðisins. Þess vegna spyr ég: Hvernig hyggjast stjórnvöld tryggja að sjónarmið og hagsmunir landsbyggðarinnar verði ekki fyrir borð borin þegar kemur að því að velja fulltrúa á stjórnlagaþing? Hér er um persónukjör að ræða og ég tel að þess vegna gætu allir fulltrúarnir komið af höfuðborgarsvæðinu. Ég tel afar nauðsynlegt að landsbyggðarfólki sé tryggð þátttaka til jafns við höfuðborgarbúa til þátttöku á stjórnlagaþingi. Og aftur spyr ég: Geta hagsmunasamtök með einhverjum hætti tryggt samtökum sínum öll sætin á stjórnlagaþinginu? Það er margt sem þarf að athuga í þessu sambandi og algjörlega nauðsynlegt að tryggja aðkomu landsbyggðarinnar.

Í umsögn Ragnhildar Helgadóttur, prófessors við Háskólann í Reykjavík, sem ég vitna hér í aftur, kemur einmitt fram að ekki er gert ráð fyrir kjördæmum í þessu kjöri sem gefur ástæðu til að óttast að fáir fulltrúar verði af landsbyggðinni. Undir þetta get ég vissulega tekið því að ég ber hag landsbyggðarfólks fyrir brjósti og hef þess vegna áhyggjur af landsbyggðinni hvað þetta varðar. Það er líka mjög óljóst í frumvarpinu hvernig stjórnvöld hyggjast tryggja að jafnræðis sé gætt milli þéttbýlisins og landsbyggðarinnar varðandi setu á stjórnlagaþingi.

Þá segir í umsögn Samband íslenskra sveitarfélaga um þetta mál, með leyfi forseta:

„Í greininni er lagt til að fulltrúar á stjórnlagaþingi verði persónukjörnir en ekki eru nein fordæmi fyrir því fyrirkomulagi hér á landi. Má draga í efa að mikill fjöldi einstaklinga sé tilbúinn að leggja í kosningabaráttu með tilheyrandi kostnaði og óvissu sem felst í framboði. Það er raunar með öllu óljóst hvort þessi aðferð við val á fulltrúum muni leiða til þess að hæft fólk sem endurspeglar vilja þjóðarinnar veljist til setu á stjórnlagaþinginu en ekki er unnt að vísa til reynslu annarra þjóða af slíku fyrirkomulagi.“

Mér er það einnig til efs að margir séu tilbúnir að leggja út í þann kostnað sem því fylgir að fara í kosningabaráttu af þessu tagi. Því er eðlilegt að spyrja hvort ekki væri skynsamlegra við þær aðstæður sem við búum við að velja fulltrúa á þingið með þeim hætti að sem breiðastur hópur karla og kvenna af öllu landinu og úr flestum samtökum og hagsmunahópum verði fulltrúar þannig að raddir þessara aðila heyrist á þessu þingi.

Kostnaður við stjórnlagaþing hefur verið nokkuð á reiki. Nefndar hafa verið tölur allt að 2 milljörðum kr. Í nefndaráliti meiri hluta er vikið að því að um sparnað sé að ræða með því að kosið verði til stjórnlagaþings jafnt og til sveitarstjórna, og með því að þingið sitji einungis í eitt ár sé hægt að spara launa- og rekstrarkostnað þingsins. Hér hlýtur að vera átt við að útgjöldin verði ekki eins mikil og upphaflega var ætlað. Að vísu hljóðaði upphafleg kostnaðaráætlun upp á um 2 milljarða kr. en nú er talið að kostnaðurinn verði á bilinu 400–500 millj. kr. Er það sparnaðurinn sem talað er um í nefndarálitinu? Í mínum huga er kostnaðurinn við stjórnlagaþing aukin útgjöld fyrir ríkissjóð hvað sem það kostar.

Fjölmargir í þjóðfélaginu gera athugasemdir einmitt við þann kostnað sem fylgir því að setja á stofn stjórnlagaþing og telja að þeim fjármunum ætti að verja til annarra og brýnni verkefna sem nóg er af núna.

Það kemur einnig skýrt fram í umsögnum ráðgjafa sérnefndarinnar að áhyggjur eru af kostnaði við stjórnlagaþing sem og í mjög góðri umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem sambandið leggur fram hugmyndir um hvernig mætti fara þessa leið og viðhafa stjórnlagaþing með minni tilkostnaði.

Ég hefði talið rétt að sérnefndin skoðaði betur tillögur sem lúta að því að halda kostnaði niðri og taka með því tillit til þeirra sem hafa áhyggjur af þessu, eins og fram kemur í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, með leyfi forseta:

„Mikill kostnaður felst í stofnun og starfrækslu stjórnlagaþings og er tæpast forsvaranlegt að stofna til slíks kostnaðar þegar unnt er að ná fram sömu markmiðum með einfaldari og hagkvæmari leiðum án þess þó að víkja frá lýðræðissjónarmiðum sem liggja að baki hugmyndum um stjórnlagaþing. Einnig hefur stofnun stjórnlagaþings þann mikla ókost að draga mjög úr áhrifum og sjálfstæði Alþingis. Eru þessar breytingar því í miklu ósamræmi við þær kröfur sem uppi hafa verið í þjóðfélaginu um að styrkja þurfi löggjafarvaldið og efla sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Vel má þó taka undir mikilvægi þess að farnar verði nýjar leiðir til þess að endurskoða stjórnarskrána. Ekki hefur reynst nægilega vel að fella ábyrgð á þeirri vinnu eingöngu á stjórnmálamenn. Rétt er að skoða þann möguleika að endurskoðunarvinnan verði í höndum Alþingis en lögð verði meiri áhersla á það en áður að virkja almenning til þátttöku. Í því sambandi mætti skoða að skipa fjölmennari nefnd en til þessa hefur tíðkast til að annast meginþunga vinnunnar. Auk fulltrúa allra þingflokka og fulltrúa sveitarfélaga gætu átt sæti í slíkri nefnd fulltrúar ýmissa helstu hagsmunahópa. Má þar nefna samtök launþega og atvinnurekenda, landeigenda, trúfélaga, náttúruverndarsamtaka, neytenda, ungs fólks, aldraðra, fatlaðra og annarra grasrótarsamtaka. Nefndin þyrfti að funda nokkuð þétt til að standast þann tímaramma sem lagður er til í frumvarpinu og hafa sérfræðinga sér til aðstoðar. Nefndarmenn mundu fá greiddan ferðakostnað og eðlilega þóknun fyrir nefndarsetu en sá kostnaður mundi þó aðeins vera brot af áætluðum kostnaði við sérstakt stjórnlagaþing.

Ef ofangreind leið yrði farin ætti einnig að hafa víðtækt samráð við almenning um endurskoðunina. Þar yrði að sjálfsögðu reynt að nýta upplýsingatækni til hins ýtrasta. Einnig yrðu haldin allmörg málþing um einstök málefni auk þess sem halda mætti stærri samráðssamkomur þar sem öllum almenningi eða a.m.k. þeim sem hafa sett fram ábendingar eða umsagnir yrði heimil þátttaka. Hafa mætti hliðsjón af fyrirkomulagi sem tíðkast hefur á íbúaþingum sveitarfélaga til að tryggja skilvirkni slíkrar samkomu.“

Mér finnst mjög skynsamlegar ábendingar varðandi þingið í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Við lestur umsagna um málið allt í heild kemur greinilega fram að margir umsagnaraðilar telja að breytingar á stjórnarskrá séu það mikilvægar að þær þurfi að ígrunda vel og ná sem víðtækastri sátt um breytingar ásamt því að ekki sé ástæða til að hraða svo mjög þessari vinnu heldur bíða nýs þings.

Enn á ný, virðulegi forseti, vil ég grípa niður í ágæta umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar segir:

„Stjórnarskrá lýðveldisins er grundvallarlöggjöf þessa lands sem öllum ber að virða. Þannig er stjórnarskránni ætlað að vera hafin yfir dægurþras og sveiflur í stjórnmálum. Vegna mikilvægis stjórnarskrárinnar er nauðsynlegt að stjórnskipunarlög séu sett að vel ígrunduðu máli og í sem mestri sátt. Af umræðu um frumvarpið má ráða að endurskoðun stjórnarskrárinnar sé nauðsynleg vegna þess efnahagshruns sem hér hefur orðið. Þær breytingar sem felast í frumvarpi til stjórnskipunarlaga virðast hins vegar ekki sérstaklega til þess fallnar að stuðla að endurreisn efnahagskerfisins og væri því eðlilegt að bíða með allar meiri háttar breytingar þar til um hægist í þjóðfélaginu. Stutt er til þingkosninga og styður það enn frekar þá kröfu að ekki verði ráðist í svo veigamiklar breytingar nú. Það kynni þó að vera lausn á málinu að einungis yrði gerð sú breyting sem felst í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins en þar er kveðið á um þjóðaratkvæðagreiðslu til staðfestingar breytingum á stjórnarskrá. Slík breyting gæfi Alþingi svigrúm til að fjalla á faglegan og ítarlegan hátt um breytingar á stjórnarskrá og leggja þær fyrir þjóðina að loknum kosningum.“

Þetta var skoðun Sambands íslenskra sveitarfélaga en sambandið hafði mjög veigamiklar athugasemdir við frumvarpið. Það gerði líka fjöldinn allur af umsagnaraðilum en það verður að segjast eins og er að það virðist ekki koma fram nokkur fögnuður yfir stjórnarskrárbreytingum sem hér á að keyra í gegnum þingið og alls ekki á að taka neitt tillit til skoðana okkar sjálfstæðismanna. Ekki verður maður heldur var við mikinn almennan fögnuð úti í þjóðfélaginu varðandi málið, þvert á móti skilur fólk ekki að breytingarnar á stjórnarskrá geti ekki beðið þar til fer að róast í þjóðfélaginu, hér fari að birta til í atvinnumálum og meira jafnvægi komist á hjá heimilum og fyrirtækjum í landinu. Nei, þessu skal þrýst í gegn í boði Framsóknarflokksins.

Virðulegi forseti. Enn getur maður velt fyrir sér hver tilgangurinn er með því að keyra þessar stjórnarskrárbreytingar í gegnum þingið á svo skömmum tíma og án þess að sátt sé um það milli þeirra flokka sem starfa á Alþingi.

Það er því hægt að taka undir með minni hlutanum í sérnefndinni en þar segir í nefndaráliti:

„Minni hlutinn undrast, í ljósi þess að á undanförnum árum hefur verið rætt um veg og virðingu Alþingis og spurninguna um stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu, að þeir sem mest hafa talað um að verið sé að styrkja stöðu Alþingis og efla á alla lund skuli standa að tillögu sem miðar að því að veikja Alþingi meira en nokkru sinni — að svipta Alþingi valdinu til að breyta stjórnarskránni. Það er hornsteinninn í valdastöðu Alþingis í stjórnskipulagi lýðveldisins að Alþingi hafi vald til að breyta stjórnarskránni. Nú koma þeir sem talað hafa um það að verið sé að setja Alþingi niður og flytja tillögu um að svipta Alþingi þessum rétti og fela það einhverjum öðrum.“

Ég segi, virðulegi forseti, enn og aftur að með því að setja á stofn sérstakt stjórnlagaþing sem hefur þessi völd er vegið að sjálfstæði og áhrifum Alþingis sem farið hefur með hlutverk stjórnarskrárgjafa um árabil. Það er mín skoðun að með því sé tekið undir það að þingmenn vinni ekki vinnuna sína og þeim sé ekki treystandi. Hér er verið að skerpa á þeirri gjá sem hefur myndast milli þings og þjóðar en ekki að styrkja tengsl og traust.

Að lokum, virðulegi forseti, tel ég að stjórnarliðar ættu að hlusta á sjónarmið margra sem telja að stjórnarskráin hafi virkað vel á lýðveldistímanum og það sé ekki þörf á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

Enn vísa ég í umsögn Ragnhildar Helgadóttur sem segir um þetta að hún mótmæli því að þörf sé á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar efnis hennar vegna. Flestir eru sammála um að þó að margt kunni að hafa brugðist undanfarin ár sé stjórnarskráin ekki þar á meðal.

Virðulegi forseti. Ég sé að ég er hér alveg að renna út á tíma en hef þó ekki fyllilega klárað ræðu mína og mun ljúka henni á þessari tilvitnun í umsögn Ragnhildar Helgadóttur, prófessors við Háskólann í Reykjavík.