144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[11:34]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ég fagna því svo sem líka að þessi áætlun sé komin fram. Ég tel hana þó ekki uppfylla markmiðið sem sett var í lögum því að henni á að fylgja rammi utan um sviðin, en svo er ekki.

En hv. þingmaður fór yfir vítt svið í ræðu sinni. Mig langar að benda á eitt stórt atriði í ljósi þess að í gær var hér dreift máli sem varðar húsnæðisbætur og talaði hv. þingmaður svolítið um það. Mig langar aðeins að vitna í umsögn fjármálaráðiuneytisins með því máli á bls. 58 og 59 þar sem fram kemur að gert er ráð fyrir 80 millj. kr. varanlegum kostnaði hjá Tryggingastofnun vegna rekstrar húsnæðisbótakerfisins og svo er einskiptisaðgerð á næsta ári upp á 20 millj. kr. Síðan er talað um 2 milljarða kr. aukningu og er tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir því í ríkisfjármálaáætlun, hvorki í gildandi áætlun né þeirri sem hér er lögð fram. Það segir okkur að afkoma ríkissjóðs gæti orðið lakari sem þessu nemur en ella verði frumvarpið samþykkt óbreytt, þ.e. verði ekki gerðar neinar mótvægisráðstafanir, til dæmis eins og hér segir, með leyfi forseta:

„… eins og að draga úr öðrum útgjöldum eða fjármagna útgjaldaaukninguna með frekari skattheimtu.“

Hér kemur líka fram að gera þurfi breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga til að lækka framlag úr ríkissjóði. Svo er í þriðja lagi rökstutt í umsögninni að greining á nýjum húsnæðisbótum gefi til kynna að niðurgreiðsla húsaleigu muni aukast hlutfallslega eftir því sem tekjur heimila eru hærri og það sé ekki í samræmi við markmið frumvarpsins.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún telji þá að frumvarpið sé lagt (Forseti hringir.) fram eingöngu til að sýnast og verði ekki samþykkt (Forseti hringir.) eða afgreitt á þessu þingi.