149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Atvinnuveganefnd fékk frumvarp um hlutdeildarsetningu á makríl inn til sín milli 2. og 3. umr. Óskað hafði verið eftir því að við ræddum hugsanlegt vanhæfi dómara í Hæstarétti vegna málssóknar fyrirtækis gegn ríkinu og niðurstöðu í því máli. Við fengum fulltrúa ráðuneytisins á okkar fund, hæstv. ráðherra og ráðuneytisstjóra, til að fara yfir þessi mál og niðurstaðan af þeim fundi var sú að ráðuneytið og ríkið sem slíkt hefði enga aðkomu að því að meta hæfi dómara í Hæstarétti; það væri ekki ríkisins að meta hæfi dómara og ekkert hefði komið upp sem hefði haft áhrif á gerð þess frumvarps sem hafði verið unnið af hálfu sérfræðinga og lögfræðinga, ekkert sem truflaði gerð frumvarpsins eða hafði áhrif á hvernig það leit út þegar það var lagt fyrir þingið. Og ekki var talin nein ástæða til að fara að blanda hugsanlegu vanhæfi dómara inn í það frumvarp að lögum sem liggur fyrir þinginu og við afgreiðum hér í dag.

Þetta er munnlegt álit nefndarinnar. Hún taldi ekki ástæðu til að vera með skriflegt framhaldsnefndarálit í þessu máli þar sem það varðaði ekki efnisinnihald þess frumvarps sem við fjöllum hér um og liggur fyrir til 3. umr.