136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

leiðtogafundur NATO – stjórnlagaþing – atvinnumál námsmanna.

[11:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Það er hárrétt sem hefur verið bent á hér í umræðunni að vandi námsmanna er fyrirsjáanlegur og hann er mikill. Hins vegar þurfum við að segja satt héðan úr ræðustól Alþingis. Þegar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson segir að enginn fulltrúi ríkisstjórnarinnar hafi tekið þátt í umræðu um málefni námsmanna á vettvangi þingsins er það rangt vegna þess að ég hef spurt bæði hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra út í vanda námsmanna og þeir hafa komið hér í pontu og svarað spurningum mínum. Reyndar er það svo að Framsóknarflokkurinn hefur verið mun duglegri við að ræða vanda námsmanna á undanförnum dögum og vikum en Sjálfstæðisflokkurinn.

Hins vegar er það þannig, hæstv. forseti, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins geta ekki komið hér upp í ræðustól án þess að nefna stjórnlagaþingið og Framsóknarflokkinn í leiðinni. (Gripið fram í.) Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir nefndi það svo smekklega hér áðan að ríkisstjórnin væri að þvinga stjórnlagaþinginu upp í Framsóknarflokkinn. (Gripið fram í.) Staðreyndin er sú að sjálfstæðismenn telja að það eigi að gera breytingar á stjórnarskránni á forsendum Sjálfstæðisflokksins og hafa talað af algjörum hroka í þessari umræðu og beint sérstaklega máli sínu að hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur (Gripið fram í.) og hafa leyft sér hér í umræðunni, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, að efast um hæfni hennar til að stýra fundum nefndarinnar. Þvílíkt yfirlæti og þvílíkur hroki sem birtist í málflutningi sjálfstæðismanna er þeim til skammar. (Gripið fram í.) Þegar sjálfstæðismenn tala um að það skorti á tillögur í efnahagsmálum óska ég eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn geri grein fyrir stefnu sinni, (Gripið fram í.) því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki lagt fram heildstæða stefnu (Gripið fram í.) í málefnum heimilanna og fyrirtækjanna ólíkt Framsóknarflokknum. (Gripið fram í.) Það er Sjálfstæðisflokknum til vansa (Gripið fram í.) að óska eftir aðgerðum hér þegar hann hefur ekkert fram að færa í efnahagsmálum. (Forseti hringir.) Enda var það svo að efnahagshrunið varð á vakt Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.)

(Forseti (GuðbH): Forseti vill vekja athygli á að margir eru enn þá á mælendaskrá en tíminn sem ætlaður var í að ræða störf þingsins er liðinn þannig að gengið er til dagskrár í framhaldi.)