136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:06]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað hið fyrra atriði varðar þá er það rétt að það hafa verið uppi heilmiklar deilur um stjórn fiskveiða og þann grunn sem er lagður undir eignarréttindi útgerðarmanna þegar kemur að sóknarrétti. Um það hafa gengið dómar eins og hv. þingmanni er fullkunnugt og ég er þeirrar skoðunar að eftir því sem tíminn hefur liðið þá hafi þessi réttur fest sig í sessi í æ ríkari mæli og er grundvöllur þess kerfis sem við höfum um fiskveiðar á Íslandsmiðum.

Það er alveg rétt að það er ekki fullvissa. En það er þá ekki á bætandi að setja inn í stjórnarskrána sérstakt ákvæði sem er til þess fallið að auka á óvissuna en ekki eyða henni. Ef menn vildu gera þjóðinni gagn mundu þeir gefa sér nægilegan tíma til þess að skoða þetta ákvæði og koma fram með lausn sem dregur úr óvissunni en eykur hana ekki, eins og allar líkur eru á að verði komi þetta ákvæði til framkvæmda og verði að lögum og verði að stjórnskipun landsins.

Hvað mannréttindaákvæðið varðar er þetta alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Þetta hefur einmitt valdið því að menn hafa velt þessu ákvæði sem á að setja inn í stjórnarskrána fyrir sér, sem olli því að hér gengu dómar þar sem menn komust að þeirri niðurstöðu að löggjafarvald hafi verið fært til dómstólanna og er það allt til mikillar umhugsunar.

Þess vegna ættum við þingmenn að draga þann lærdóm og læra af þeirri reynslu þegar við sjáum fyrir fram að um er að ræða vafa. Þegar við höfum fyrir fram ábendingar frá lögspekingum um að sumir telji einfaldlega að hugtakið sem við ætlum að setja inn í stjórnarskrá sé merkingarlaust og sé þess vegna hættulegt bara sem slíkt og aðrir sem telja að það hafi merkingu en mikil óvissa sé um réttaráhrifin sem af því mundu hljótast, þá hljótum við að sjálfsögðu að læra af reynslunni, horfast í augu við það að við eigum að gera vel og vanda okkur. Það er ekki þar með sagt að við höfum ekki vandað okkur síðast (Forseti hringir.) en það er rétt sem hv. þingmaður hefur sagt að menn sjá ekki alla hluti fyrir. Ekki einu sinni stjórnlagaþing mun gera það.