138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Stuttlega um þau mál sem þegar hefur borið á góma í þessari umræðu vil ég byrja á því að víkja máli mínu að því sem fram kom hjá hv. þm. Óla Birni Kárasyni að því er varðar tiltekin frumvörp sem eru til umfjöllunar í allsherjarnefnd. Hann hélt því m.a. fram að svokallað lyklafrumvarp hefði verið fast þar í sjö mánuði. Það er rangt. Það frumvarp hefur verið til meðferðar á vettvangi allsherjarnefndar frá því að það var lagt fram og var vísað til nefndarinnar. Fjölmargar athugasemdir hafa komið fram við frumvarpið, margir gestir komið á fund nefndarinnar til að fjalla um það. Á vettvangi allsherjarnefndar er verið að vinna í frumvarpinu og verður það gert áfram eins og með fjölmörg önnur mál sem varða hag heimilanna í landinu.

Vegna þess að þau mál eru sérstaklega til umfjöllunar vil ég segja að það mun ekki bjarga neinu heimili í landinu að einstakir þingmenn komi stöku sinnum hingað í þingsal og hafi uppi stór og mikil orð um aðgerðaleysi núverandi hæstv. ríkisstjórnar. (Gripið fram í.) Núverandi hæstv. ríkisstjórn og Alþingi hefur að sjálfsögðu gripið til fjölmargra ráðstafana til að taka á þeim vanda sem við er að glíma í íslensku efnahags- og atvinnulífi. En að sjálfsögðu viðurkennum við það sem styðjum þessa ríkisstjórn eins og hver annar að fjölmargt er líka ógert í því efni. Það væri nær fyrir þingmenn að taka höndum saman um að leiða til lykta þau fjölmörgu verkefni sem við blasa og við þurfum að taka á sameiginlega fyrir íslenska þjóð. (Gripið fram í.) Stóryrði og frammíköll hv. þm. Höskulds Þórhallssonar munu engu bjarga, ekki einu einasta heimili í landinu. (HöskÞ: Meiri hlutinn er ...)

Síðan ætla ég að segja það stuttlega varðandi Magmamálin að það hefur aldrei farið fram hjá neinum að það er skoðun okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að orkuauðlindirnar, eins og allar náttúruauðlindir, eigi að vera í eigu íslensku þjóðarinnar. Við viljum tala fyrir því. Að sjálfsögðu var stigið óheillaskref árið 2007 í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar ákveðið var að einkavæða þetta fyrirtæki með þeim hætti sem gert var og opinberum aðilum meinað að kaupa hlut í þessu ágæta fyrirtæki.