139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

beiðni um opinn nefndarfund.

[14:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nú kann mig að misminna að það sé alls ekki fullnægjandi af hálfu forseta að vísa í þessu efni til 15. gr. þingskapa og það sé rangt hjá hv. þingmönnum Einari K. Guðfinnssyni og Birgi Ármannssyni að það sem óskað er eftir sé skylt. Vissulega er skylt að efna til fundar ef þrír nefndarmenn óska þess og ekkert nema sjálfsagt að það sé gert og því hefur formaður nefndarinnar þegar lýst yfir. Það sem farið var fram á var opinn nefndarfundur og það hygg ég að sé ekki eftir 15. gr. skylt heldur kalli á samþykki nefndarinnar sjálfrar fyrir því að opna fundinn. Ég held að um óframkomin þingmál fari auðvitað best á því að ráðherra komi í þingsalinn í beinni útsendingu fyrir alþjóð og mæli á þeim stóra opna fundi sem hér er fyrir málinu og að öllum þingmönnum gefist kostur á að taka þátt í þeirri umræðu. Hún getur auðvitað þurft að taka lengri tíma en stuttur nefndarfundur. Ég hvet fulltrúa Sjálfstæðisflokksins til að greiða fyrir því (Forseti hringir.) að málið komist á þann opna fund (Gripið fram í: Bara í dag.) sem fundur á Alþingi Íslendinga er. (Gripið fram í: … í dag.)