140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[23:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu. Það er margt gott í samgönguáætlun, það segir sig sjálft og mikil vinna hefur verið lögð í hana. Ég tel hins vegar að áherslurnar í henni séu ekki réttar og ekki forgangsröðunin. Ég legg sérstaka áherslu á það að við erum ekki að forgangsraða í þágu umferðaröryggis. Ég hef haldið margar ræður um þetta og hef ekki fengið nein mótrök gegn því. Reyndar held ég að flestir ef ekki allir Íslendingar séu sammála því.

Á hverju ári slasast margir alvarlega í umferðinni og á bak við orðalagið „slasast alvarlega“ stendur sú skilgreining á alvarlegum slysum að viðkomandi jafnar sig aldrei. Hann nær aldrei fullum bata og sumir hljóta ævarandi örkuml. Oftar en ekki er þetta mjög ungt fólk og kostnaðurinn við umferðarslys hleypur á tugum milljarða. Við getum aldrei komið í veg fyrir þau en með því að gera umferðarmannvirki þannig úr garði að þau verði sem öruggust getum við dregið stórlega úr þeim.

Það er ekkert við það að athuga að hv. þingmenn leggi áherslu á þau svæði sem þeir koma frá, hv. þingmenn eru kosnir af fólki í viðkomandi kjördæmum. En af hverju getum við ekki náð saman um að forgangsraða um allt land í þágu umferðaröryggis? Við eigum núna góðar upplýsingar um áhættumestu vegina, hættulegustu vegina þar sem slysin verða. Af hverju setjum við okkur ekki það markmið að útrýma hættulegustu stöðunum? Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég hélt að við mundum sjá breytta tíma í þessu en svo er ekki.

Síðan er annað að einn staður á landinu hefur verið tekinn út og nú er búið að segja að næstu tíu árin verður ekkert gert í samgöngumannvirkjum í Reykjavík. Þetta hljómar ótrúlega en þetta er satt. Hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að næstu tíu árin verði framkvæmdastopp í Reykjavík. Menn segja: Þetta er ekki bara Reykjavík, þetta er líka höfuðborgarsvæðið. En staðreyndin er sú að verkefnin eru eftir í Reykjavík, þetta er miklu minna mál fyrir aðra staði á höfuðborgarsvæðinu. Hættulegustu staðirnir í þéttbýli í umferðinni eru í Reykjavík. Það er fullkominn misskilningur að það sé dýrt að breyta þeim öllum. Svo er ekki. Sumar breytingarnar eru tiltölulega ódýrar þó að auðvitað kosti mikið að fara í stór umferðarmannvirki og við þurfum að gera það á höfuðborgarsvæðinu.

Virðulegi forseti. Ég get ekki stutt þessa samgönguáætlun. Ég tel að forgangsröðunin sé röng. Það er ekki forgangsraðað í þágu fólks og þá er ég að vísa til umferðaröryggis og líka til þess að það vill svo til að hér í Reykjavík keyra flestir bílarnir og búa flestir íbúar. Þó svo að ég sé tilbúinn til að berjast fyrir góðum samgöngumannvirkjum úti um allt land, sérstaklega í þágu umferðaröryggis, er ekkert réttlæti í því að taka einn stað á landinu út úr, höfuðborgina, og segja: Hér verður ekkert gert næstu tíu árin. Það er stefna hæstv. ríkisstjórnar.