144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[19:21]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um staðgreiðsluskatt á fjármagnstekjur, lögum um fjársýsluskatt, tollalögum, lögum um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og lögum um búnaðargjald, með síðari breytingum. Aðallega er um að ræða samræmingu og einföldun.

Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir, framsögumaður á meirihlutaáliti hv. efnahags- og viðskiptanefndar, fór vel yfir feril málsins og þær breytingar sem verið er að gera, en þess ber að geta að 1. umr. fór fram hér í þingsal 6. nóvember 2014. Jafnframt gerði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon grein fyrir nefndaráliti minni hluta eða þeim muni sem er á milli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og hv. þm. Árna Páls Árnasonar sem báðir eiga sæti í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Sá munur kemur fram í breytingartillögu hér og snýr að skjölunarskyldu. Að öðru leyti var samstaða í nefndinni um aðra þætti þessa frumvarps.

Það sem ég ætla að gera hér til upprifjunar er að ræða 18. gr. frumvarpsins sem snýr að breytingu á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum. Í athugasemdum með upprunalegu frumvarpi segir, með leyfi forseta:

„Í a-lið er lagt til að tekinn verði af allur vafi um að skilyrði niðurfellingar vörugjalda samkvæmt ákvæðinu er að bifreiðar séu búnar hjólastólalyftu eða sambærilegum búnaði. Sambærilegur búnaður er til að mynda skábrautir og sérútbúin sæti með snúnings- eða lyftubúnaði.

Þá er í b-lið lagt til að tekinn verði af allur vafi um að fjórhjól, sexhjól, körtur, golfbílar og beltabifreiðar, þar með talið vélsleðar, beri 30% vörugjald samkvæmt 3. tölulið 4. gr. laganna. Ökutækin verða því talin upp í ákvæðinu, verði frumvarpið að lögum, en rétt þykir að kveða skýrt á um það.“

Virðulegur forseti. Fram komu athugasemdir við frumvarpið frá Sjálfsbjörgu – landssambandi fatlaðra, undirritaðar af Bergi Þorra Benjamínssyni, en ætlunin var, hjá nefnd á vegum velferðarráðuneytis, að smíða nýjar reglur um bílamál fatlaðra. Það frumvarp sem við fjöllum um hér er einn hluti þeirrar vinnu þar sem er niðurfelling á vörugjöldum af ökutækjum fyrir fatlað fólk, og það kemur fram í athugasemd að ekki sé nógu góð grein gerð fyrir þeim breytingum sem um er að ræða í frumvarpinu.

Í athugasemd, sem ég vitna hér til, er farið fram á að bætt verði úr í greinargerð þannig að tekinn verði af allur vafi. Við þessari athugasemd var brugðist í nefndaráliti undir yfirskriftinni: Skilyrði vegna bifreiða fatlaðs fólks sem undanþegnar eru vörugjaldi. Ætla ég að rifja það hér upp og lesa óbreytt, með leyfi forseta:

„Í 18. gr. frumvarpsins er lagt til að allur vafi verði tekinn af um að það sé skilyrði niðurfellingar vörugjalda af bifreiðum sem eru sérstaklega búnar til flutnings á fötluðu fólki, samkvæmt ákvæði m-liðar 1. töluliðs 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., að þær séu búnar hjólastólalyftu eða öðrum sambærilegum búnaði.“

Eins og ég kom að, virðulegi forseti, þá var, í umsögn sem nefndinni barst, áhyggjum lýst yfir því að ekki kæmi nægilega skýrt fram hvort lyfta, rampur, lyftusæti og lyftuarmur fyrir einstaklinga sem aka sjálfir teljist til búnaðar sem er sambærilegur hjólastólalyftu. Skilningur nefndarinnar er að sá búnaður sé dæmi um búnað sem telst falla undir hugtakið „sambærilegur búnaður“.

Ég rifja þetta hér upp, virðulegi forseti, það var sameiginlegt álit nefndarinnar að hér með væri tekinn af allur vafi að um væri að ræða slíkan búnað.