136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd -- frumvarp um stjórnarskipunarlög -- röð mála á dagskrá.

[10:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að það eru önnur mál á dagskránni sem eiga miklu brýnna erindi í dag en það mál sem hér er ætlunin að taka fyrst, stjórnarskipunarlög. Stjórnarskipunarlög eru að sönnu gríðarlega mikilvægt mál og nauðsynlegt að ræða það vel á öllum tímum. Hins vegar eru ákveðin mál sem snúa beint að hagsmunum atvinnulífsins og fyrirtækjanna og heimilanna í landinu sem í raun og veru ætti að vera skylda okkar á þingi að taka fyrir fyrst og reyna að ljúka í góðri sátt og geyma (Gripið fram í.) síðan ágreininginn um stjórnarskipunarlögin. Við ættum að gera það, hæstv. forseti.

Ég verð að segja, miðað við áherslur ríkisstjórnarinnar, að þetta er eins og ef menn væru í fyrirtæki sem ætti í gríðarlegum rekstrarerfiðleikum, skuldirnar (Forseti hringir.) orðnar miklar, kröfuhafar við dyrnar og þá settumst menn niður og færu að ræða skipuritið.