138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ræddi hér fyrr í kvöld þetta frumvarp og kvartaði undan því að þarna sé engin framtíðarsýn, þetta séu eiginlega bráðabirgðalög vegna þess að verið er að boða alls konar breytingar á heildarkerfinu.

Í fyrsta lagi er spurningin: Hefur ríkisstjórnin einhverja framtíðarsýn? Ég held ekki, hún hefur alla vega ekki komið fram. Þá munu menn væntanlega spyrja hvort ég hafi einhverja framtíðarsýn. Hana hef ég.

Hver er staðan? Í fyrsta lagi erum við með einn ríkisbanka og við erum með tvo einkabanka. Sú einkavæðing fór tiltölulega hljótt og hefði sennilega hvinið í einhverjum þingmanni — ég man nú eftir hv. þm. Ögmundi Jónassyni þegar verið var að einkavæða Landsbankann á sínum tíma. Hann var mjög hnugginn yfir því, sem varð til þess að ég gaf honum hlutabréf í Landsbankanum. Það var reyndar ekki mjög hátt, þúsund krónur. En hann hefði eflaust farið hamförum hér við þessa einkavæðingu sem fór svo hljótt.

Hins vegar verð ég að segja að mér finnst þessi einkavæðing hafa verið mjög skynsamleg enda lagði ég hana til bæði meðan Sjálfstæðisflokkurinn var við völd og eins síðar. Hún leysir nefnilega eitt vandamál sem er nánast óleysanlegt, það er mat á þessum fræga afskriftasjóði. Ef kröfuhafarnir hefðu ekki átt bankann sem fékk afskriftasjóðinn hefðu þeir verið miklu harðari á því að þessi afskriftasjóður yrði miklu minni. Þeir mundu hafa hótað málaferlum og eflaust farið í mál til að reyna að minnka afskriftasjóðinn eins og hægt er þannig að þeir fengju sem mest greitt af kröfum sínum, því að þeir borga að sjálfsögðu afskriftirnar. Með því að þeir eignist bankann hverfur ástæðan til að rífast um verðmæti þess sem flutt er yfir vegna þess að þeir fá hagnaðinn sjálfir. Þeir fá hann núna þessa dagana og hann var innbyggður inn í mjög rúman afskriftasjóð þannig að það yrði góður hagnaður af bönkunum.

Þetta er ástæðan fyrir því að ég lagði til að nýju bankarnir færu undir gömlu bankana, þ.e. slitastjórnina, og yrðu eign kröfuhafanna til þess að losa menn við áratugadeilur fyrir öllum dómstólum á öllum stigum um allt milli himins og jarðar, neyðarlögin o.s.frv., og ná fram sæmilegri sátt við kröfuhafa einmitt um þetta og það gerðist.

Nú eru þeir hins vegar orðnir eigendur. Þeir koma að sjálfsögðu með þegar fram líða stundir og gerast raunverulegir eigendur því að þeir eru það ekki enn þá. Þegar þeir taka yfir þessa eign sína munu þeir koma með reynslu, þekkingu og kannski tengsl líka. Þeir munu örugglega útvega lánsfé til þessara banka, þeir hafa áhuga á því að þessir bankar blómstri vegna þess að þeir eiga þá, það er bara mjög einfalt. Ég hugsa að þetta sé ekki slæm aðferðafræði.

Ókosturinn við þetta er sá að það liggur alls ekkert fyrir hverjir eigendurnir eru vegna þess að það gengur kaupum og sölum alla daga og breytist stöðugt hverjir eru kröfuhafar. Menn kaupa kröfur og selja kröfur o.s.frv. Hins vegar sýnist mér að meiri hlutinn sé með breytingartillögu, sem er ágæt í sjálfu sér, til að leysa þetta vandamál. Þar er skylda til að upplýsa um kröfurnar og kröfuhafa.

Við erum líka með sparisjóði. Því miður hefur ríkisstjórninni tekist mjög illa með sparisjóðina.

Ég á eftir að minnast á þennan eina ríkisbanka sem eftir er, Landsbankann. Eftir neyðarlögin eru þrír kröfuhafar í þann banka. Það er breska ríkið sem keypti yfir allar Icesave-kröfurnar í Bretlandi, það er hollenska ríkið sem keypti yfir allar Icesave-kröfurnar í Hollandi og eignast þar með forgangskröfu í Landsbankann. Einn stærsti eigandinn er svo íslenska ríkið sem tekur yfir kröfur Innlánstryggingarsjóðs eða ábyrgist þær. Þetta fer nú allt eftir því hvernig samkomulag um Icesave gengur fyrir sig. Ég vil, frú forseti, endurtaka að ég get óskað öllum gleðilegs dags vegna þess að enn er ekki búið að skrifa undir Icesave og hver dagur sem Icesave frestast er góður dagur, sérstaklega vegna þess að óvissan verður að vissu, smám saman á hverjum degi. Stærsti ókosturinn við Icesave-samkomulagið var óvissan.

Svo erum við með sparisjóðina sem er ákveðinn vandi og þar fórst ríkisstjórninni mjög óhönduglega. Ég tel að það hafi verið mikil mistök að láta SPRON fara á hausinn, það hafi verið einhver óbilgirni eða stífni vegna þess að verðmæti SPRON lágu mikið í „goodwill“ eða góðum orðstír. Þó að reksturinn hafi ekki verið sérstaklega góður — hann var eiginlega mjög slæmur, hagnaður fyrirtækisins myndaðist eingöngu af gengishækkun Kaupþings og Exista — var orðspor SPRON óskaplega gott. Þar fóru mikil verðmæti forgörðum þegar reksturinn var stöðvaður. Þekking og tengsl starfsmanna við viðskiptamenn bankans voru mjög góð.

Það vantar líka framtíðarsýn varðandi hvort sameina eigi Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og það er ekki einu sinni búið að ákveða hvort það eigi að vera fjárfestingarbanki og viðskiptabanki í sama bankanum o.s.frv. þannig að allt er þetta mjög óljóst.

Frú forseti. Tíminn er að hlaupa frá mér þannig að ég þarf sennilega að biðja um aðra ræðu.

Ég ætla að ræða um mína framtíðarsýn. Til þess að geta selt stofnfé í þeim mæli sem er um að ræða og til þess að geta selt hlutabréf svo þessir kröfuhafar geti einhvern tíma selt þessa banka, segjum á næstu fimm árum, verða menn að skapa traust, ekki bara til þess að selja þessa banka heldur líka til þess að búa til hlutabréfamarkað aftur. Ég er búinn að fara aftur og aftur í gegnum öll þessi óskaplegu tengsl og þennan galla sem er í hlutafélagaforminu, sem ég tel mig hafa sannað að er til staðar, að peningar geti farið í hring. Menn verða að hindra það. Það geta þeir nefnilega í dag, líka eftir að búið er að samþykkja það sem við ræðum hér um. Það verður að koma í veg fyrir að menn fái lán til kaupa á hlutabréfum og það þarf að koma í veg fyrir að dótturfélög geti keypt í foreldrum sínum.

Það er komið í veg fyrir það á vissan hátt í þessu frumvarpi en ekki nægilega mikið vegna þess að menn geta keypt í hlutafélagi sem á í hlutafélagi sem á aftur í hlutafélagi sem á í bankanum. Bankinn gæti keypt í þessum forföður sínum og peningarnir gætu runnið alla leiðina til baka og farið í hring. Það er einmitt það sem þarf að hindra með öllum ráðum, að peningar fari í hring. Krosseignarhald og slík hringekja ættu ekki að vera til staðar og það á við um öll hlutafélög. Ég tel að það sé mjög brýnt að búa til og fá nýja framtíðarsýn á fjármálamarkaðinn, nýja framtíðarsýn á hvernig menn ætla að selja t.d. stofnbréf. Það byggir á því að fólk öðlist aftur traust. Ef það er einhver minnsti möguleiki á því að menn geti holað bankana aftur að innan með þessum peningahringekjum, eins og gerðist í allt of ríkum mæli og kemur skýrt fram í mjög þykku neti sem birtist í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, verða menn að koma með eitthvað sem er í ætt við þessi gagnsæju hlutafélög sem ég hef lagt til. Ég skora nú á hv. viðskiptanefnd að kanna það mjög ítarlega hvort lausnin sé þar.

Ég ætlaði að tala hérna um virkan eignarhluta, frú forseti, en þarf sennilega að bíða með það einhvern tíma.