149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[18:41]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Þá stendur til að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og við munum sennilega greiða atkvæði um frumvarpið síðar í kvöld. Það sem við höfum verið að velta fyrir okkur í hv. efnahags- og viðskiptanefnd er hvort sjálfstæður seðlabanki með allt fjármálaeftirlitið verði sterkari til að takast á við framtíðaráföll. Um það eru skiptar skoðanir í nefndinni. Ég er ein af þeim sem efast stórlega um að þetta sé gott skref. Heildaryfirsýn á kerfisáhættu og sterkt eftirlit með fjármálageiranum er nauðsynlegt en leiðin sem hæstv. ríkisstjórn vill fara er hins vegar að mínu mati líkleg til að veikja fjármálaeftirlit og skapa vantraust á Seðlabanka Íslands.

Allt eftirlit með fjármálastarfsemi verður hjá Seðlabankanum og auk þess á bankinn að framfylgja peningastefnu og stuðla að fjármálastöðugleika. Þannig á að sameina stór og þjóðhagslega mikilvæg verkefni undir einni stofnun. Það er ekki sú leið sem mest hefur verið rædd á undanförnum árum og mælt með, þ.e. að sameina þjóðhagsvarúð og eindarvarúð í Seðlabankanum en að Fjármálaeftirlitið sinni áfram viðskiptaháttaeftirliti og neytendavernd í sjálfstæðri stofnun.

Einn af lærdómum fjármálahrunsins er mikilvægi þess að skýr skil séu á milli þeirra sem fara með eftirlit og þeirra sem hafa tæki til að tryggja fjármálastöðugleika. Samþykki Alþingi frumvarpið um Seðlabankann, sem allar líkur eru á að Alþingi muni gera, verður hann gríðarlega valdamikil, sjálfstæð stofnun og þótt ekki væri nema bara þess vegna er líklegt að stjórnmálamenn vilji hafa áhrif á starfsemi slíkrar stofnunar. Þess vegna hef ég varað við því að flokkspólitískir hagsmunir ráði för frekar en faglegt mat við ráðningu embættismanna enda á forsætisráðherra að ráða tvo yfirmenn og fjármálaráðherra tvo.

Það er ekki bara Samfylkingin sem hefur varað við þessari hættu, heldur hafa bæði innlendir og erlendir sérfræðingar bent á að þarna ætti að stíga varlega til jarðar. Ég nefni grein Gylfa Zoëga í Vísbendingu sem birt var nýlega.

Í umsögnum sem nefndinni bárust um frumvörpin var varað við því að viðskiptaháttaeftirlit yrði fært undir sjálfstæðan seðlabanka og allt er það vegna þess að seðlabankastjórar verða að geta beitt sér og tekið ákvarðanir sem gætu verið óvinsælar hjá stjórnmálamönnum, ákvarðanir sem varða hag almennings til langs tíma en þjóna ekki skammtímahagsmunum stjórnmálamanna eða flokka, til að mynda fyrir kosningar.

Áhyggjurnar af mikilli orðsporsáhættu fyrir seðlabanka sem sinnir viðskiptaháttaeftirliti eru ekki úr lausu lofti gripnar. Skemmst er að minnast þess hvernig fór þegar Seðlabankanum var falið gjaldeyriseftirlit og hvernig fór í máli Seðlabankans og fyrirtækisins Samherja. Traust á seðlabanka er afar mikilvægt og í litlu landi getur verið stutt í að deilur verði persónulegar og það sem skaðar orðspor seðlabankastjóra skaðar einnig orðspor bankans. Það er rétt að minna á að í öllum hinum norrænu ríkjunum er fjármálaeftirlitið í sjálfstæðri stofnun.

Við í 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar veltum fyrir okkur hvort ekki hefði verið betra að sameiginlegur samráðsvettvangur Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins hefði verið formgerður og samningur styrktur hvað það varðar, upplýsingasöfnun og gagnavinnsla verði sameiginleg, sameiginlegum gagnagrunni komið á svo og tölvukerfi og greitt fyrir upplýsingaflæði á milli stofnananna frá því sem nú er og yfirsýn beggja aukin en ekki sameinað. Þetta hefði verið svona minnsta skrefið sem hægt hefði verið að taka því að það er mikilvægt að þessar stofnanir vinni mjög vel saman, hafi aðgang að sömu upplýsingum og að upplýsingaflæðið á milli sé gott.

Annar möguleiki hefði verið að sameina í fyrsta skrefi þjóðhagsvarúð og peningastefnu, enda byggir hvort tveggja á hagfræðilegri greiningu þjóðhagsstærða, búa til einn nýjan aðstoðarseðlabankastjóra og þjóðhagsvarúðarnefnd, fá ytra mat frá erlendum aðilum og meta árangurinn eftir eitt ár eða svo og taka mögulega síðan skrefið sem lýst er í V. kafla frumvarpsins um fjármálaeftirlit í sjálfstæðu skrefi eftir að árangur af fyrri sameiningu hefur verið metinn. Þetta er eftirlit með einstökum stofnunum, viðskiptaháttum o.s.frv. og er framkvæmt að miklu leyti af lögfræðingum.

Það sem var þriðja best í þessari stöðu var að mati okkar í 1. minni hluta að vinna breytingartillögur við frumvarpið sem gætu virkað sem eins konar öryggisventill fyrir starfsemina og einnig aðhald. Við unnum með hv. þingmanni, formanni efnahags- og viðskiptanefndar, Óla Birni Kárasyni, og fulltrúum annarra í meiri hlutanum að breytingartillögum sem eru á þskj. 1884 og þær eru virkilega til bóta að mínu mati. Það er mjög ánægjulegt að um þær skyldi nást svo víðtæk samstaða í nefndinni. Eins og ég nefndi áðan fjalla þær um ytra eftirlit innlendra og erlendra sérfræðinga sem hafa vítt svið og dekka allt sviðið, líka fjármálaeftirlitssviðið, og gera mat á starfseminni á fimm ára fresti, fyrst 2022. Einnig á ráðherra að skila skýrslu til Alþingis eftir eitt ár og meta stöðuna og það er sett fram í bráðabirgðaákvæði.

Það er fjallað um aðkomu seðlabankastjóra að fjármálaeftirlitsnefndinni. Hann kemur inn aðeins þegar sérstök málefni eru þar til umræðu en ekki þegar t.d. viðskiptaháttaeftirlitið er til umræðu. Síðan er fjallað um fjármálaráðið, bæði um hlutverk þess og eins um hæfi og þekkingu sem Alþingi ætti að passa að verði inni í ráðinu þegar Alþingi kýs í það.

Þó að ég sé á móti málinu og hafi lýst því í þessari ræðu minni og í fyrri ræðum eru breytingartillögurnar sannarlega til bóta. Ég vil leyfa mér fyrir hönd 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar að þakka formanni nefndarinnar fyrir samstarfið og fyrir að hafa ekki aðeins tekið vel í breytingartillögur okkar heldur einnig gert þær betri en þær voru þegar við lögðum þær fram í upphafi. Ég þakka fyrir samstarfið að þessu leyti og við munum auðvitað greiða atkvæði með okkar eigin tillögum þó að frumvarpið í heild sé okkur ekki að skapi.