150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:25]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er raunar býsna merkilegt að hv. þingmaður hafi áhyggjur af hálftómum lestarvögnum eða strætóvögnum en dásamar svo einkabílinn sem er ekið að miklu leyti með einum til tveimur farþegum í, þannig að þeir eru þá væntanlega hálftómir líka. Ég myndi skilja áhyggjurnar ef við værum að gera tilraun sem engir aðrir væru að feta sig eftir í heiminum. En þannig er staðan að mjög margar borgir eru einmitt að fara þessa leið, þær sem ekki höfðu almenningssamgöngur þegar. Mesta deiglan er kannski í Bandaríkjunum sem höfðu byggt upp mjög ósjálfbær borgarsamfélög sem ég mun fara yfir í ræðu minni að einhverju leyti.

En mig langar að tala aðeins um efasemdir sem hv. þingmaður hefur um loftslagsmálin. Hann leggur þessa samgönguleið og einkabílinn að jöfnu og talar um að slit á vegum verði töluvert miklu meira af því að þetta eru þungir vagnar. Þekkir hv. þingmaður ekki til þeirra rannsókna sem sýna að góðar skilvirkar almenningssamgöngur leiða beinlínis til þess að borgir verða þéttari og teygja síður úr sér? Hv. þingmaður nefndi sjálfur þann kostnað sem fellur til vegna ónauðsynlegra kílómetra í lagningu gatna. Gerir hann þá ekki ráð fyrir að þessi leið sé einmitt heppileg til að leiða til afleidds sparnaðar í orkusóun?