150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[17:14]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni að einhver hreyfing sé að komast á þau mál eftir það framkvæmdastopp sem hefur verið árum saman. Það hefur leitt af sér, samfara fjölgun íbúa á svæðinu og annarra slíkra þátta, að hér hafa skapast erfiðleikar í umferðinni sem birtast í miklum töfum og fólk sem fer til vinnu á morgnana og úr vinnunni síðdegis situr lengi í bílum. Það er auðvitað augljós skerðing á lífsgæðum fyrir utan þá sóun sem í því felst.

Því miður, herra forseti, er áherslan í þessum framkvæmdum um of á svokallaða borgarlínu. Hvergi er vikið að þeirri þjóðnýtu framkvæmd sem Sundabraut væri og hefur dregist allt of lengi.

Fyrir liggur umsögn frá Alþýðusambandi Íslands sem ástæða er til að vekja athygli á. Þar er rakið að þessu opinbera hlutafélagi sé m.a. ætlað að halda utan um uppbyggingu samgönguinnviða, innheimtu flýtigjalda og þróun Keldnalands sem félaginu er lagt til. Þar segir enn fremur að áætlað sé að félagið komi til með að starfa a.m.k. fram til ársins 2033. Þá segir í umsögn Alþýðusambandsins að athygli veki að sú leið sé valin að setja á laggirnar opinbert hlutafélag sem hafi umsjón með ólíkum verkefnum, þ.e. uppbyggingu innviða, þróun Keldnalands og mögulegri innheimtu flýtigjalda. Þá segir, með leyfi forseta:

„ASÍ telur skorta rökstuðning fyrir því að stofna opinbert hlutafélag utan um þessi verkefni. Ekki kemur fram hvernig samspili við Vegagerðina á að vera háttað eða hvers vegna verkefnið er ekki fjármagnað með beinum framlögum hins opinbera fremur en með tilfærslu eigna og þróun eignarlands.“

Alþýðusambandið tekur fram í umsögn sinni að það telji afar mikilvægt að fjárfest verði í innviðum á næstu árum. Þá segir:

„Þessi afstaða birtist skýrt í nýútgefinni stefnu ASÍ, Réttu leiðinni, um uppbyggingu Íslands til framtíðar. Ljóst er að núverandi aðstæður í efnahagsmálum kalla á að hið opinbera stígi kröftuglega fram, bregðist við fordæmalausum samdrætti í kjölfar útbreiðslu Covid-19 og stuðli að fullri atvinnu.“

Þá segir einnig að veruleg uppsöfnuð fjárfestingarþörf hafi þegar verið til staðar áður en núverandi efnahagskrísa hófst — ég geri ráð fyrir að með því orðalagi sé vísað til efnahagsáfallsins sem leiddi af heimsfaraldri — og skýrist hún af því að opinber fjárfesting hafi um árabil ekki haldið í við mannfjölgun eða breytingar samfélags, atvinnulífs og umhverfis. Af þeim sökum telur Alþýðusambandið fullt tilefni til að gagnrýna að nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum séu háðar og tengdar sölu á eignum ríkisins. Þar er átt við þróun Keldnalands og tekið fram að einnig sé vísað til sölu Íslandsbanka og innheimtu flýtigjalda. Alþýðusambandið lýsir því áliti að nauðsynleg fjárfesting í innviðum og viðhald á innviðum eigi ekki að vera fjármögnuð með sölu eigna hins opinbera (Forseti hringir.) heldur sé hún hluti af eðlilegum rekstri samfélagsins.