150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Ég hef verið að fara yfir einstakar greinar frumvarpsins um hluthafasamkomulagið og ítreka að hér er um mjög stórt mál að ræða, fjárframlög úr ríkissjóði upp á tugi milljarða króna. Þess vegna verður að vanda mjög vel til verka. Við höfum lagt áherslu á það í Miðflokknum að við teljum einfaldlega engan veginn skynsamlegt að ráðast í þetta borgarlínuverkefni, jafnvel þótt ýmislegt annað sé ágætt í þessu samkomulagi sem lýtur t.d. að hjólreiðastígum, mannvirkjum tengdum gangandi vegfarendum, ljósastýringu og öðrum slíkum mikilvægum verkefnum. En borgarlínuverkefnið eitt og sér er eitthvað sem okkur hugnast ekki. Í fyrsta lagi er þetta gríðarlegur kostnaður. Það liggur ekki fyrir hver nýtingin verður og það eru merki þess að hún verði ekki nægileg til að standa undir verkefninu. Þar hefur m.a. danskt ráðgjafarfyrirtæki bent á að nauðsynlegt sé að ráðast í þvingunaraðgerðir til að ná að hækka hlutfall þeirra sem nota almenningssamgöngur og strætisvagna. Okkur hugnast ekki sú aðferð í Miðflokknum að ætla að þvinga fólk til að fara í þá stóru strætisvagna sem lagt er upp með í þessari tillögu.

Ég vil koma aðeins að 8. gr., herra forseti, sem ég fór yfir í síðustu ræðu. Í lok hennar segir, með leyfi forseta:

„Félaginu er heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt.“

Það er náttúrlega alveg ljóst að hér er verið að gefa heimild til þess að gera ýmsa samninga sem ekki eru fyrirséðir. Hvernig verður þá með þær fjárhagslegu skuldbindingar sem ríkissjóður þarf að undirgangast þar? Það er alveg ljóst að þær verður að leggja sérstaklega fyrir Alþingi til samþykktar eða synjunar. Það kemur því verulega á óvart, herra forseti, að ekki skuli kveðið neitt á um það í frumvarpinu. Það þarf að bæta 8. gr. verulega hvað þetta varðar. Maður spyr sig hvers vegna ekki sé tekið á þessu.

Ef ég vík svo að 9. gr. er í henni rætt um slit félagsins. Þá segir, með leyfi forseta:

„Félaginu skal slitið þegar það hefur lokið verkefnum að fullu og þegar fullnaðaruppgjör hefur farið fram og öllum eignum félagsins ráðstafað.“

Hvernig verður uppgjörinu háttað þegar á að ráðstafa þessum eignum? Maður hefði talið eðlilegt að þarna væri þá ákvæði um að þeim yrði úthlutað úr félaginu til eiganda félagsins á heildarkostnaðarverði. Það er ekkert eðlilegt að verið sé að afhenda einhverju sveitarfélagi hluta af þessum mannvirkjum þegar félaginu verður slitið undir kostnaðarverði. Það er bara fullkomlega óeðlilegt og þess vegna er nauðsynlegt að tryggja þetta og bæta við sérstöku ákvæði um að eignum skuli úthlutað úr félaginu til eiganda á heildarkostnaðarverði.

Þetta er einn af göllunum í frumvarpinu sem ég hef verið að fara yfir. Það eru ákvæði sem þarf að laga og bæta. Það er í 6. gr., ég er búinn að fara yfir hana, og það er í 7., 8. og 9. gr. Ég verð að segja, herra forseti, að það kemur verulega á óvart að ekki skuli vera búið að tryggja þetta með fullnægjandi hætti í því viðamiklu samkomulagi sem hér er lagt upp með og í svo stóru máli með skuldbindingar úr ríkissjóði upp á tugi milljarða. Mér finnst þetta fljótfærnisleg vinnubrögð og nauðsynlegt að fara miklu betur yfir það. Svo eru menn að hneykslast á því að við í Miðflokknum séum að vanda okkur í því að fara yfir þetta mál. Það er skylda okkar ef við höfum það í huga að hér er um miklar skuldbindingar af hálfu ríkissjóðs að ræða. (Forseti hringir.)

Ég óska hér með eftir, herra forseti, að verða settur aftur á mælendaskrá.