150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[17:36]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda áfram með nefndarálit minni hluta fjárlaganefndar sem er sett fram af hv. þm. Birgi Þórarinssyni. Ég var komin að því að ræða um stjórnskipulega stöðu stýrihópsins sem fyrirhugað er að setja á laggirnar, ef það hefur ekki verið gert nú þegar. Honum virðist ætlað að stýra félaginu og ætlast er til þess að þessi stýrihópur taki allar meiri háttar ákvarðanir. Það er spurning hvort það sé hreinlega löglegt að fara svona með þetta og full ástæða til að vekja athygli á því að það mætti kannski athuga þennan lið betur. Stýrihópnum er líka ætlað, stýrihópi allra stýrihópa, að útfæra hvernig innheimta eigi umferðargjöld árið 2022 og það er nú svolítið merkilegt að það sé stýrihópurinn sem eigi að gefa þær upplýsingar.

Ég hjó eftir því áðan, hjá hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, að hann talaði um Hringbraut og Landspítala á röngum stað. Það er einmitt það sem gæti sett strik í reikninginn. Ég veit ekki til þess að sjúkraflutningamenn hafi sent umsögn eða haft aðkomu að því hvernig fara eigi með það umhverfi sem þar er í kring. Ég velti því fyrir mér hvort haft hafi verið samráð við þá vegna þess að frumvarpið fór ekki í samráðsgátt og mér skilst að einungis sex umsagnir hafi borist sem snúa beinlínis að þessu gríðarstóra verkefni og mér finnst það undarlegt. Ekki er annað hægt en að hafa áhyggjur af því að aðkoma sjúkraflutningamanna sé hreinlega látin liggja milli hluta. Ef einhver veit eitthvað frekar þætti mér vænt um að fá þær upplýsingar. Í nefndarálitinu er líka fjallað um hugsanlegt land undir nýjan spítala, Keldnalandið, en það á að selja. Það er enn eitt sem er alveg stórundarlegt, að ætlast sé til þess að það land fari undir borgarlínu eða hluta hennar í stað þess að hugsa málið aðeins upp á nýtt.

Hv. þm. Birgir Þórarinsson endar á að segja með leyfi:

„Minni hlutinn fagnar því að kominn er farvegur og vonandi farsæl lausn til að byggja upp samgöngur á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar þó að margt sé ófrágengið, eins og vikið er að í nefndaráliti þessu, og hefði verið betra að þau mál væru frágengin áður en frumvarp þetta verður að lögum.

Minni hlutinn telur hins vegar að áform um borgarlínu séu vanhugsuð. Verkefnið er gríðarlega kostnaðarsamt og leiðir alls ekki til þeirrar hagkvæmni sem eðlilegt er að gera kröfur um. Það er því skoðun minni hlutans að hér sé um sóun á fé skattborgaranna að ræða.“

Ég get ekki verið meira sammála. En það er líka mjög sérstakt að þetta gríðarstóra mál hafi ekki farið í gegnum samráðsgátt og það er líka mjög undarlegt að upplifa það að fólk sé hissa á því að við þingmenn Miðflokksins viljum ræða þetta mál. Það er ekki bara að það sé eitthvað eitt að tala um borgarlínu, slíkir fjármunir eru undir, og enn og aftur finnst mér óeðlileg forgangsröðun í þessu. Það hefur ekki verið farið í aðra þætti sem hugsanlega gætu skipt máli eins og að búa hreinlega til hvata til að breyta viðhorfi fólks til þess að nota strætó, nútímavæða ljósastýringu og byrja sem fyrst á stofnbrautunum og huga að hjólreiðum og vistvænum samgöngum. Það er margt í þessu.

Ég bið hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.