154. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2024.

aðgerðir til að tryggja umferðaröryggi .

[10:53]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er nú orðið svo, því miður, að ræðustóll Alþingis er orðinn einhvers konar keppnisvöllur í gífuryrðum. Ég ætla að reyna að flysja þau utan af spurningu hv. þingmanns sem talar um að vegakerfið sé gjörsamlega ónýtt og það hafi ekkert verið gert. Það er rangt og hv. þingmaður veit það. Hann segir að samgönguáætlun hafi verið tekin úr sambandi. Það er líka rangt og hv. þingmaður veit það vonandi líka. Hv. þingmaður leggur til að sú sem hér stendur segi af sér út af þessu öllu saman og mér finnst það nú ekki sérstaklega vel rökstutt hjá hv. þingmanni. En það flýgur hver eins og hann er fiðraður og það gerist líka hér í þessum þingsal, ef fólki finnst það vera til þess að sýna þinginu sóma að hafa mál sitt uppi með þeim hætti sem hv. þingmaður gerir. Samgönguáætlun er í gildi og ný samgönguáætlun verður lögð fram á Alþingi í haust til úrvinnslu og afgreiðslu.