154. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2024.

fordæming á framgöngu Ísraelsmanna á Gaza sem þjóðarmorðs.

[11:01]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem við höfum gert undanfarna mánuði er m.a. að vera í samskiptum beint við hina deilandi aðila. Ég hef í tvígang átt samtöl, annars vegar fund og síðan símtöl, við utanríkisráðherra Palestínu, sömuleiðis heyrt í tveimur ísraelskum utanríkisráðherrum, sótt fund til að ræða þessa alvarlegu stöðu í Ósló þar sem komu utanríkisráðherra Sádí-Arabíu m.a. og forsætisráðherra Katar, sem hafa miklu meira um það að segja hvernig úr þessu spilast og geta miðlað málum heldur en aðrir. Til alls þessa höfum við verið að hvetja. Við höfum verið að stórauka fjármögnun mannúðaraðstoðar inn á svæðið. Við höfum talað fyrir því að rutt sé úr vegi hindrunum fyrir því að mannúðaraðstoðin berist. Við höfum kallað eftir friði. Það höfum við gert hjá Sameinuðu þjóðunum. Við höfum gert það alls staðar þar sem við höfum haft tækifæri til að láta rödd okkar heyrast. Þannig sýnum við í verki hvar hugur íslensku þjóðarinnar stendur.