154. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2024.

gjaldtaka á bílastæðum við innanlandsflugvelli.

[11:04]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem var allvíðtæk og tók almennt kannski á þeim þætti samgöngumála sem lýtur að búsetuvali og byggðajafnrétti, þ.e. að það séu greiðar leiðir á milli svæða í landinu, bæði að því er varðar möguleika á því að komast milli svæða og efnahagslega þætti, kostnað o.s.frv. Ég tek undir þau sjónarmið sem koma fram í fyrirspurn hv. þingmanns þar um og skiptir auðvitað mestu máli það sem snýst um grundvallaröryggisinnviði eins og heilbrigðisþjónustu, en ekki síður auðvitað um það að geta sótt atvinnu. Mér hafa líka verið mjög ofarlega í huga möguleikar barna að komast til og frá skóla eftir því sem landstór og dreifbýl sveitarfélög eru að horfast í augu við sameiningu grunnskóla á sínu svæði o.s.frv. og lítil börn eru að fara langar leiðir í bíl á degi hverjum.

Hv. þingmaður staldraði líka sérstaklega við gjaldtöku á bílastæðum við innanlandsflugvelli sem er umræða sem hefur verið töluvert greinileg, sérstaklega að því er varðar Egilsstaði. Ég vil bara taka fram að þessi ákvörðun er tekin undir lok síðasta árs af stjórnendum Isavia innan lands. Það er á því borði sem þessi ákvörðun er tekin. Gjaldtakan átti að hefjast í febrúar en hefur verið frestað og ég tel að Isavia innan lands hafi hlustað vel eftir þeim sjónarmiðum sem hafa komið fram varðandi bæði þau sem þurfa að standa í tíðum ferðum vegna heilbrigðisþjónustu (Forseti hringir.) og annarra slíkra sjónarmiða og vilji aðlaga þá þjónustu að þeim athugasemdum (Forseti hringir.) sem hafa komið fram í umræðunni.