138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:07]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mín skoðun á dreifðu eignarhaldi er alveg skýr. Þegar ég talaði fyrir hönd míns flokks á sínum tíma þegar við ræddum skýrslu rannsóknarnefndarinnar gerði ég ítarlega grein fyrir því að ég teldi að það hefðu verið ein af mistökunum að falla frá þeim áskilnaði sem upphaflega var uppi um tiltekna dreifingu á eignarhaldi í bönkunum. Ég færði þá fyrir því rök að með öðru ætti það sinn þátt í falli bankanna að þetta dreifða eignarhald var ekki tryggt. Ég er ekki að segja að það hefði bjargað öllu. Við gerum okkur auðvitað grein fyrir því að ýmislegt hefði síðan getað þróast á eftirmarkaði. Það breytir þó ekki því að það á að vera hið eðlilega pólitíska markmið að hafa eignarhaldið á bönkunum dreift og það er stefna okkar sjálfstæðismanna.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um afnám verðtryggingar og að nota nánast ferðina þegar verið er að endurreisa bankakerfið held ég að það mál sé í sjálfu sér sjálfstætt úrlausnarefni. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að banna eigi verðtryggingu. Ég er ósammála því sjónarmiði að banna eigi verðtryggingu. Ég held að það eigi að reyna að þróa fjármálakerfið þannig að aðgangur fólks verði meiri og betri að óverðtryggðum lánum. Hins vegar er athyglisvert að núna er komin heilmikil reynsla á þetta mál. Við þau úrræði sem fjármálafyrirtækin, m.a. eignarleigufyrirtækin, hafa boðið upp á þar sem boðin eru ýmis úrræði fyrir viðskiptavini sem þúsundir hafa nýtt sér hefur mörgum þeirra boðist að velja á milli óverðtryggðra og verðtryggðra reikninga. Og hvert er val neytendanna? Val þeirra er að miklum meiri hluta verðtryggð lán en óverðtryggð. Ástæðan er væntanlega sú að það er óvissa í efnahagsmálum, það er mikil verðbólga, ríkisstjórnin er ófær um að takast á við það vandamál og þess vegna kýs fólk frekar öryggið í verðtryggingunni en í óverðtryggðum lánum.