138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[22:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljúft að svara þessum spurningum. Í fyrsta lagi tel ég að ef Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn yrðu sameinuð, sem ég tel vera betri kost en að hafa þau hvort í sínu lagi, náist betri samvinna og betri samhæfing þeirra krafta sem eiga að hafa eftirlit með fjármálamarkaðnum. Ég held að það sé ekki vandamálið að Fjármálaeftirlitið hafi ekki nægilegar heimildir heldur er vandamálið það að reglurnar eru óljósar, það er svo mikið af matskenndum reglum. Þegar menn eru með matskenndar reglur eru þeir hræddir við að taka ákvörðun vegna þess að þeir geta bakað ríkissjóði skaðabótaskyldu.

Varðandi framtíðarsýn á fjármálamarkaðinn, hlutabréfamarkaðinn og fjármálafyrirtæki sérstaklega, er ljóst að það þarf að afla heilmikils hlutafjár, áhættufjár. Inn í bankana vantar nokkur hundruð milljarða ef við ættum að kaupa þá af útlendingunum. Það er ekki skortur á peningum til að gera það, peningarnir eru til. Þeir eru núna inni í bönkunum sem innlán, að mestu leyti þó óvirk innlán. Þeir eru samkvæmt mínum upplýsingum geymdir að einhverju leyti í Seðlabankanum þar sem ríkissjóður borgar vexti á þetta mikla fé án þess að það vinni neitt. Ég hugsa að ef hægt væri að virkja þetta fé gæti hér orðið tiltölulega öflugur hlutabréfamarkaður og þar með gætum við fjármagnað þessa tvo einkabanka og sparisjóðina ef það tækist að skapa traust.

Verkefni þessarar stundar til þess að skapa þá framtíðarsýn sem ég hef er það að búa til traust hvað sem það kostar. Við verðum að komast að rót vandans, við verðum að átta okkur á því hvað gerðist: Hvernig tókst örfáum stórum hluthöfum í rauninni að hola að innan öll stærstu hlutafélög landsins og hvernig getum við hindrað slíkt?