144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

störf þingsins.

[12:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Bullið ríður ekki við einteyming hjá hv. varaformanni Samfylkingarinnar, það verður að segjast alveg eins og það er, að það sé verið að fara leiðina sem Samfylkingin varðaði í afnámi gjaldeyrishafta. Nei, við skulum bara láta þar við sitja og leyfa fólki að [Háreysti í þingsal.] hafa þessa skoðun. (Forseti hringir.) [Háreysti í þingsal.]

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir talaði um það hér áðan að það væri mikilvægt að við fylgdum ferlum. Hún nefndi ívilnanalög, sem eru hér til afgreiðslu í þinginu, til stuðnings sínu máli og það að við ættum ekki að fara út fyrir þá ramma sem löggjöfin bæri og að við ættum að fylgja þessum ferlum. (Gripið fram í.) En af því að við vorum að tala um Bakka þá er fjárfestingarverkefni Lilju Rafneyjar og félaga í hinum vinstri flokkunum langt fyrir utan þessi ívilnanalög, hefði aldrei rúmast innan þessara ívilnanalaga sem þingið setur. (ÖS: Ertu á móti Bakka?) Það hefur þurft alveg sérlög til þess að það verkefni færi í gegn til hliðar við ívilnanalögin, nákvæmlega allir þeir milljarðar sem ríkið er að láta þar af hendi til þess að þetta verkefni geti orðið að veruleika. Þetta er tvískinnungshátturinn í málflutningnum, virðulegur forseti, hjá þessu fólki sem er tilbúið að styðja þetta mál. Af því að það hentar kjördæmi fyrrverandi formanns Vinstri grænna, Steingríms J. Sigfússonar, sem kom með málið inn í þingið þá er þetta allt í lagi. Nú er allt í lagi (Gripið fram í.) að gera þetta þarna, en þegar kemur að öðrum kjördæmum og öðrum málum þá fara menn að flækja sig í einhverjum forsendum (Gripið fram í.) og í einhverjum ferlum og þvæla málinu út og suður þannig að það rýkur úr hausnum á þeim sjálfum. Þau skilja ekki sjálf hvað þau eru að tala um. [Kliður í þingsal.]

Það er auðvitað ákveðin lausn í þessu rammamáli fyrst menn eru að kalla eftir henni, menn geta tekið málið til baka og þá þarf (Forseti hringir.) að flytja málið aftur í haust. Þá þarf ráðherra til að fylgja málinu eftir í ferlinu, hér er skorað á menn að fylgja ferlinu, og koma fram með breytingartillögur um kannski fimm eða sex kosti. Þá er búið að uppfylla þetta og þá getum við afgreitt þetta í október. Fimm eða sex virkjunarkostir, ég væri svo sem alveg tilbúinn að skoða það að kvitta upp á þetta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)