145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

tekjuskattur.

655. mál
[21:19]
Horfa

Flm. (Páll Jóhann Pálsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum, um fæðispeninga sjómanna.

Flutningsmenn eru sá sem hér stendur, hv. þm. Páll Jóhann Pálsson, og hv. þingmenn Elsa Lára Arnardóttir frá Akranesi og Ásmundur Friðriksson Eyjapeyi, sem býr á Suðurnesjum.

1. gr. hljóðar svo:

Á eftir orðunum „dagpeninga“ í 1. tölulið A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga, kemur: fæðispeninga sjómanna.

2. gr.:

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Með frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að draga kjarasamningsbundna fæðispeninga sjómanna frá tekjum samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt. Í 1. tölulið A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt er kveðið á um að útgjöld að hámarki móttekin fjárhæð dagpeninga megi draga frá tekjum manna og njóta til að mynda flugmenn og flugfreyjur slíks frádráttar. Flutningsmenn telja rök fyrir því að bæta við ákvæðið heimild um að fæðispeninga manna, sem stunda sjómennsku á íslensku skipi eða skipi sem er gert út af íslensku skipafélagi, megi draga frá tekjum enda starfa þeir fjarri heimili sínu líkt og áðurnefndar starfsstéttir.

Svo mörg voru þau orð. Þetta frumvarpi lætur ekki mikið yfir sér og það eru ekki háar fjárhæðir á bak við, en við teljum að þetta sé ákveðin viðurkenning á störfum sjómanna sem starfa fjarri heimilum. Ég skal alveg viðurkenna að það hefði verið góður bragur á því að klára þetta frumvarp svo að það gæti orðið lögum í dag, rétt áður en við göngum inn í sjómannahelgina. Eins og landsmenn vita er sjómannadagurinn núna á sunnudaginn og víða eru skemmtanahöld byrjuð, í sjávarplássum um allt land, (ÖS: Jafnvel í þessu húsi.) jafnvel í þessu húsi, já. Það hefði því verið stíll yfir því, eins og þeir segja, (Gripið fram í.) en ég held samt að þetta sé fyrsta skrefið og geri mér vonir um að málið fari til umsagnar og hægt verði að afgreiða það strax að loknu sumarleyfi.

Þess má geta líka að í dag var samþykkt frumvarp um samsköttun hjóna sem ég tel að komi sjómönnum til góða og sé líka viðurkenning á því að eðli málsins samkvæmt er það þannig hjá sjómannsfjölskyldum að í langflestum tilfellum eiga makar sjómanna eða konur sjómanna, eins og það er í flestum tilfellum, erfitt um vik að stunda fulla vinnu og því er það oftar en ekki þannig að sjómennirnir afla langstærsta hluta teknanna á heimilinu. Ég tel þess vegna að það muni koma sjómönnum til góða. Ég held að sjómenn geti glaðir gengið til þessarar helgar og verið sáttir við sinn hlut. Ég lofa því að gera mitt besta til þess að frumvarpið verði að lögum eftir sumarfrí.

Að lokum segi ég bara: Gleðilega sjómannahelgi.