149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

mannanöfn.

9. mál
[22:57]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir framsögu meiri hlutans og hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir mjög greinargóða yfirferð yfir minnihlutaálitið og tillögur minni hlutans.

Mál þetta snýst um málefni sem standa eins nærri einstaklingum og hægt er að hafa — það er kannski ekki alveg rétt, og þó, en við vorum með annað mál sem varð að lögum í gær sem fjallaði um kynrænt sjálfræði. Framsögumaður þess máls, Steinunn Þóra Árnadóttir, steig hér í pontu og fagnaði því með réttu að það mál hefði náð fram að ganga. Hún var mjög glöð og ég tók undir gleði hennar. Hún sagði: Þetta er gríðarlega mikilvægt. Það er gríðarlega mikilvægt að einstaklingur geti skilgreint kyn sitt.

Með sama hætti vil ég segja: Það er gríðarlega mikilvægt að einstaklingur ráði nafni sínu. Frumvarp þetta gengur út á það. Minni hlutinn hefur lagt mjög mikla vinnu í að gera þetta eins vel úr garði og nokkur kostur er. Mér er einnig til efs að það séu mjög mörg mál sem fengið hafa jafn ítarlega umfjöllun og jafn margar gestakomur og þetta mál. Ég held að ég fari nokkurn veginn rétt með þegar ég segi að málið hafi verið tekið fyrir á a.m.k. 19 fundum allsherjar- og menntamálanefndar. Fjölmargar umsagnir komu og fjölmargir gestir, þannig að það er alveg klárt að um þetta mál hefur verið fjallað ítarlega og hlustað á öll sjónarmið.

Mannanöfn eru mikilvæg. Við erum með lög um mannanöfn og við erum með lög um mannanafnanefnd. Mannanafnanefnd vinnur vanþakklátt starf samkvæmt núgildandi mannanafnalögum og það sem ég mun fjalla hér um sem varðar áhrif þeirrar nefndar hefur ekkert að gera með ágæti og samviskusemi og góðan vilja nefndarmanna í mannanafnanefnd og vil ég að það komi algjörlega skýrt fram.

Sumum er mjög annt um íslenskan mannanafnahefð og telja hana gríðarlega mikilvæga og ég tek að mörgu leyti undir það. En þá verðum við að spyrja okkur: Er núverandi fyrirkomulag til þess fallið að varðveita íslenska mannanafnahefð? Ég tók niður nokkur dæmi úr nýjustu úrskurðum mannanafnanefndar. Það nýjasta er að það má ekki heita Kona, það má ekki heita Vatneyringur, það má ekki heita Zar, það má ekki heita Ingadóra og það má ekki heita Sukki. En það má heita Milli, en það má bera fram á ólíka vegu. Það má heita Kráka, það má heita Leonardo og það má heita Taron og það má heita Sigarr og það má heita Zoe. Svo má líka heita Vetrarsól og Albjört og það má heita Natalí en það má ekki heita Eðwald. Það má heita Kolþerna en það má ekki heita Danski, það má ekki heita Carlsberg, það má ekki heita Myrká, það má ekki heita Gleymmérei, en það má heita Ká, það má heita Ernest og það má heita Diego en það má ekki heita Tindur. Það má heita Dittó.

Allt eru þetta ágætisnöfn og hef ég ekkert við þau að athuga og er ánægðir með það ef fólk vill heita þessum nöfnum og er stolt af því.

Svo má líka heita Zíta og það má heita Ram og það má heita Sál.

Ég spyr þá sem eru áhugamenn um íslenska mannanafnahefð og að varðveita það sem fyrir er hvort þetta séu lýsandi dæmi um þá hefð sem stendur þeim svona nærri hjarta að þeir geta ekki hugsað sér að breyta út af þessu. Mitt svar er nei.

Mig langar líka til þess að segja að í minnihlutaálitinu og tillögum er tekið mið af öllum þeim athugasemdum sem fram komu nema auðvitað grundvallaratriðinu, ekki er gefinn afsláttur af því að menn ráði hvað þeir heita. Það má segja að álit minni hlutans og breytingartillögur á frumvarpinu feli í sér að börn njóti ríkari verndar samkvæmt þeim tillögum en samkvæmt gildandi lögum. Þá geta komið þrír aðilar að því að meta hvort nafn er þannig úr garði gert að það verði barni til ama, þ.e. þjóðskrá, Árnastofnun, sem er sérfræðingur í mannanafnahefðinni, og umboðsmaður barna sem á að gæta velferðar barna.

Í dag eru það ágætir málfræðingar sem véla um hvað sé barni til ama og hvað sé barni ekki til ama. Að þessu leyti verður vörnin sterkari, en að sama skapi eru fullorðnir einstaklingar látnir taka ábyrgð á því hvað þeir vilja heita ef þeir kjósa að breyta nöfnum sínum sem þeim voru gefin á barnsaldri. Menn hafa rökstutt amaákvæðið þannig, og það var gert t.d. þegar nafninu Sukka var hafnað, að af því að það var fullorðinn maður sem vildi heita Sukki væri svo sem allt í lagi að hann fengi að heita Sukki. En það var einn hængur á; ef mannanafnanefnd leyfir manninum að heita Sukki fer nafnið á mannanafnaskrá. Og hvað gerist þá? Þá gætu foreldrar einhvers barns tekið upp á því að kalla barnið og nefna það Sukka. Það má náttúrlega ekki koma til greina og þess vegna verður að fara þá leið að banna fullorðnum einstaklingi að ráða því hvað hann heitir.

Ég held að því miður hafi meiri hluti nefndarinnar fallið í þá gryfju, og það kom reyndar fram og ég efast um að meiri hlutinn leggi í að mótmæla því, að hann lagði ekkert af mörkum til þess að laga, bæta eða koma fram sjónarmiðum sínum í starfi nefndarinnar, hreint ekki neitt. Það var nú allur áhuginn sem framsögumaður meiri hlutans telur nefndina hafa á því að gera breytingar á mannanafnalögum. Það er a.m.k. harla skrýtinn áhugi sem birtist í því að hafa ekkert til málanna að leggja, leggja ekkert gott til, segja bara þegar málið er komið á lokastig: Ja, þetta er okkur ekki að skapi, við viljum frekar að haldið sé áfram með vinnu sem hefur sofið í hæstv. dómsmálaráðuneyti síðan 2016. Þar hefur ekkert verið gert, ekki neitt, í því að breyta þessum lögum, ekki neitt.

Ég vona að sá fyrirgefi mér sem ég vitna nú til. Ég las færslu á Facebook í dag sem rituð var af Eiríki Rögnvaldssyni, prófessor emerítus. Ég held að fáir hafi lagt jafn mikið til þess að gæta þess að íslensk tunga varðveitist og haldi gildi sínu. Hann segir í tilefni af því að foreldrum drengs var meinað að skíra barn í höfuðið á afa sínum. Hann segir:

„Nafnið var þó af rammíslenskum rótum og afinn hafði borið það athugasemdalaust alla ævi, en vegna þess að hann var einn um það taldist nafnið ekki hefðað og hafði ekki verið leyft.

Þarna rann það upp fyrir mér að lög sem koma í veg fyrir að lítið barn sé nefnt í höfuðið á afa sínum eða ömmu eru ómanneskjuleg. Þau standast ekki. Þau eru ólög. Það er óviðunandi að við þurfum að búa áfram við slík lög um ófyrirsjáanlega framtíð.“

Ég sleppi af kurteisisástæðum ummælum sem hann lætur falla um tiltekinn stjórnmálaflokk í þessu samhengi en ég ætla að halda áfram, með leyfi forseta:

„Því er haldið fram að það þurfi að fara varlega í breytingar á mannannafnalögum vegna áhrifa sem þær gætu haft á íslenska tungu.“ — Það er tónninn sem er sleginn þegar menn tala um þetta. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emerítus, segir áfram:

„Ég þykist ekki minni áhugamaður en hver annar um varðveislu og verndun íslenskunnar, en ég hef aldrei séð nein rök færð fyrir þessum meintu neikvæðu áhrifum, enda hafa erlend mannanöfn flætt inn í málið alla tíð og gera enn án þess að íslenskan skaðist af því.“

Frú forseti. Ég las áðan upp nokkur dæmi úr úrskurðum mannanafnanefndar sem starfar eftir núgildandi lögum og gerir það af samviskusemi. Ég hlýt að spyrja hv. þingheim og áhugamenn um nafngiftir hvort íslensk tunga, íslensk málhefð, hafi beðið tjón af þessum nöfnum. Ég held að svarið sé mjög einfalt: Nei, síður en svo.

Ég verð að segja að ég skil það bara ekki, í ljósi þess að í gær samþykkti sem betur fer góður meiri hluti þingsins ný lög um kynrænt sjálfræði. Þar fallast menn á það að fólk hafi sjálft um það að segja hvers kyns það er. Og það er gott. Það er mjög róttæk breyting. Í þeim lögum sem þingið samþykkti í gær voru felld niður ákvæði mannanafnalaga um að stúlkum skuli gefa stúlkunöfn og drengjum drengjanöfn. Ég spyr: Hvar var mannanafnahefðin þá og áhyggjur manna af því að íslensk tunga myndi bíða varanlegt tjón af þeirri breytingu, þá væntanlega, eins og fram kemur hér, a.m.k. hjá sumum, að slíkt — ja, í mínum huga hefur það sennilega einhver áhrif á það hvernig menn hugsa og þurfa að hætta að hugsa í flokkunum 0:1, kona:karl, og fólk er strax farið að velta því fyrir sér hvað ef það er strákur sem heitir Guðrún í hvorn búningsklefann hann eigi að fara í sundinu. Eru þetta ekki algjörlega ófyrirsjáanlegar og ólíðandi afleiðingar af því frábæra frumvarpi sem við samþykktum í gær?

Ég myndi halda að það hafi verið býsna róttæk og djörf breyting hjá þinginu í gær að taka þessa merku ákvörðun, sem ég styð fullkomlega og er mjög ánægður með, en nú vilja menn fara svo varlega að þeir telja að með þessu frumvarpi, með áorðnum breytingum sem fram koma í áliti minni hlutans, sé orðin stórhætta á því að íslensk menning, íslensk tunga, muni bíða verulegan skaða af. En á sama tíma hafa menn ekkert fram að færa, ekki neitt, ekkert, skila bara auðu og segja: Við viljum þetta ekki, við viljum þetta ekki, við viljum þetta ekki. Það er allt frjálslyndið, öll virðingin fyrir réttindum einstaklingsins sem kristallast í þessum málflutningi.

Ég verð að segja, frú forseti, að það verða mér gríðarleg vonbrigði ef alþingismenn samþykkja ekki þetta frumvarp, ef menn sýna ekki í verki hvað þeir voru djarfir og framsýnir í gær og að það endist a.m.k. næsta sólarhring, að menn verði aftur djarfir og framsýnir þegar greidd verða atkvæði um þetta frumvarp og breytingartillögur minni hlutans.