149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

mannanöfn.

9. mál
[23:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni af ræðu hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar er eitt atriði sem ég vil undirstrika sem ég held að við hv. þingmaður eigum sameiginlegt í þessu máli. Það er að þau dæmi sem hann nefnir um úrskurði mannanafnanefndar undirstrika að þörf er á endurskoðun á löggjöfinni. Ég er sammála honum um að mannanafnanefnd hefur ábyggilega og reynir ábyggilega að rækja hlutverk sitt af samviskusemi og kostgæfni í samræmi við þau lög sem gilda. Ég myndi vilja taka þannig til orða að stundum hafi mannanafnanefnd lent í ógöngum með framfylgd þeirra ákvæða sem nú gilda. Hægt er að nefna fjölmörg dæmi um mjög skrýtnar niðurstöður í störfum hennar og margt sem hefur í raun komið mér á óvart og vakið furðu þegar maður hefur sem leikmaður lesið fréttir af því.

Ég vil alls ekki fara í einhverjar þrætur við hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson en ég vildi hins vegar undirstrika að það sem hann nefnir og nefnir dæmi um er í mínum huga góður rökstuðningur fyrir því að fara í endurskoðun á þessari löggjöf sem ég vil meina að hafi ekki reynst sem skyldi. Þar með er ekki sagt að ég hafi öðlast sannfæringu fyrir því að sú (Forseti hringir.) lausn sem hér er lögð á borðið sé fullnægjandi.