149. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[00:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér liggur fyrir hefur það að meginmarkmiði að styrkja lagaumgjörð og stjórnsýslu fiskeldis og byggja upp sterka og öfluga atvinnugrein sem byggir á sjálfbærri þróun. Vernd lífríkisins og villta laxins er höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna. Þeirri mikilvægu og sjálfsögðu kröfu hefur verið haldið á lofti að uppbyggingin sem við blasir bitni ekki á hinum villta íslenska og einstaka laxi.

Stærsta breytingin sem frumvarpið kveður á um snýr einmitt að því að lögfesta sérstakt stýritæki, áhættumat erfðablöndunar, sem hefur það hlutverk að koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum laxastofnum. Við verðum í kvöld fyrsta landið í heiminum til að lögfesta slíkt tæki sem bindur framleiðsluheimildir við það að vernda villta stofna. Það er stórt og merkilegt skref. Áhættumatið þarf síðan að þróa frekar og það verður gert, m.a. með alþjóðlegri rýni. Vissulega eru skiptar skoðanir um marga hluti í þessu efni en í heildina er meginlínan jöfn og söm í öllum þeim (Forseti hringir.) umræðum sem hér hafa átt sér stað.

Ég þakka sömuleiðis atvinnuveganefnd fyrir frábæra og góða vinnu.