150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[14:32]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið í minni síðustu ræðu sem ég gat tímans vegna ekki klárað. Ég hef verið að fara yfir frumvarpið eins og það liggur fyrir. Í 2. gr. þess er talað um tilgang og markmið félagsins, þessa opinbera hlutafélags sem á að stofna með sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og ríkissjóði þar sem ríkissjóður er 75% eigandi og sveitarfélögin eiga 25%. Talin eru upp meginmarkmið félagsins, um að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu og jafnframt uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.

Síðan er talað um að stuðla að loftslagsmarkmiðum stjórnvalda. Ég er búinn að fara aðeins yfir þessa liði og síðan er einn liður sem segir að stuðla eigi að auknu umferðaröryggi. Ég verð nú að segja að mér finnst hafa vantað svolítið rökstuðning fyrir því hvernig borgarlína eigi að stuðla að auknu umferðaröryggi. Það er fullyrt að borgarlínan eigi að fækka umferðarslysum en reyndar er ekki minnst á hvernig það eigi að gerast. Bara eitt lítið dæmi sem er alveg hægt að nefna í þessu samhengi en það eru t.d. öryggisbelti. Nú er það þannig að ég held að í þessum vögnum sé það yfirleitt bara strætisvagnabílstjórinn sem er í öryggisbelti og farþegarnir eru náttúrlega lausir og standa í vagninum á álagstímum o.s.frv. Ég get ekki séð að verið sé að bæta öryggi með þessum hætti eins og sagt er hér og það er kannski hluti af þessu að það er verið að reyna að auka afköstin með því að leyfa farþegum að standa. En það hafa orðið alvarleg slys vegna þess að fólk er ekki í öryggisbelti í strætisvögnum þannig að mér finnst orka tvímælis að setja þetta fram eins og gert er í frumvarpinu. En farþegar í einkabílum eru alltaf spenntir í öryggisbelti. Við vitum það. Það er bara þannig og ég sé ekki í fljótu bragði að það sé öruggari ferðamáti að ferðast með borgarlínu en fólksbíl. Ég sé það ekki alveg, herra forseti.

Ég hef aðeins farið yfir þessi atriði varðandi tilgang og markmið félagsins. Í 3. gr. frumvarpsins er rætt um hlutverk og verkefni félagsins og samkvæmt e-lið er hlutverk félagsins að innheimta flýti- og umferðargjöld á höfuðborgarsvæðinu. Hér er náttúrlega bara komin stefnubreyting, það á að fara að innheimta veggjöld, umferðargjöld, og þetta er náttúrlega aukin skattheimta fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins sérstaklega. Ég held að það sé alveg ljóst og þarfnast að sjálfsögðu mjög ítarlegrar umræðu. Ég held að t.d. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hafi harðlega gagnrýnt öll áform um veggjöld og þetta er náttúrlega ekkert annað en veggjöld vegna þess að verið er að þvinga fólk til þess að fara úr einkabílnum og yfir í þennan samgöngumáta. Þá er komið að því að það þarf að fjármagna þetta og það á að gerast með þessum flýtigjöldum og umferðargjöldum. Hér er komið atriði sem þarfnast bara mjög ítarlegrar skoðunar. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson minntist einmitt á þetta sérstaklega í sinni ræðu. Hér væri líka orðið ósamræmi vegna þess að í þessu samstarfsverkefni um vegaframkvæmdir, svokölluðu PPP-verkefni, var upphaflega ekki gert ráð fyrir veggjöldum. Menn hafa gagnrýnt það mjög að verið sé að fara þessa veggjaldaleið þar þannig að það er orðið ósamræmi í þessu eins og fram hefur komið í umræðunni og auk þess verði ákveðið með lögum að leggja slík gjöld á, segir hér. (Forseti hringir.) Þetta er eitthvað sem er algjörlega óútfært, herra forseti. Ég sé að tíminn er liðinn og bið hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.