150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[16:05]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Ég nefndi í fyrri ræðu umsögn Ríkisendurskoðunar og ég tel ástæðu til að árétta það sem þar kemur fram. Það eru kannski tvö meginefnisatriði. Annars vegar segir að í frumvarpinu sé hvergi vikið að upplýsingaskyldu hins áformaða opinbera hlutafélags til nefnda Alþingis. Það er náttúrlega ekki fullnægjandi, frú forseti. Minnumst þess að hér erum við með skjal sem er skrifað eins og háttur er af hálfu slíkra stofnana af mikilli varkárni og gætni, af hófsemi. Þar segir ennfremur að Ríkisendurskoðun telji ekki efni til að embættið velti fyrir sér meginefni frumvarpsins um heimild til að stofna til opinbers hlutafélags um þær framkvæmdir sem eru í undirbúningi.

Þetta hlýtur að þýða að embættið vilji varast að taka upp að fyrra bragði, nema það telji mjög mikla ástæðu til, einstakar spurningar sem snúa að þessu verkefni nema þeim sé sérstaklega beint til stofnunarinnar af réttum aðilum. Þess vegna er það sem kemur í framhaldinu af þessum ummælum þeim mun þungvægara, með leyfi forseta:

„Rétt þykir þó að benda á mikilvægi þess að áætlanagerð áður en kemur að framkvæmdum sé bæði ítarleg og gagnsæ. Eins og nú háttar til virðist margt í svokallaðri borgarlínu vera óljóst. Er því athugasemd þessi sett fram til að árétta mikilvægi vandaðrar áætlanagerðar.“

Það fer ekkert á milli mála að Ríkisendurskoðun sýnist að undirbúningi þessa máls sé nokkuð áfátt. Þetta er mjög í þeim anda sem við Miðflokksmenn höfum bent á í umræðunni um samgöngumálin, þar sem þetta er auðvitað eitt málið. Til að mynda liggur ekki einu sinni fyrir rekstraráætlun borgarlínu. Það eru ekki einu sinni drög eða vísir eða neitt að rekstraráætlun með yfirlit um kostnað og mögulegar tekjur af verkefninu í sinni einföldustu mynd. Ekkert slíkt liggur fyrir um þetta. Varðandi fjármögnun verkefnisins liggur heldur ekkert fyrir um það hvernig fara skuli með ef til að mynda einstakir framkvæmdaþættir í þessu samstarfsverkefni, sem þetta opinbera hlutafélag er stofnað utan um, fara fram úr kostnaðaráætlun eins og altítt er. Þá er með alveg ófullnægjandi hætti fjallað um það hvernig sá viðbótarkostnaður skiptist á milli þeirra sem eiga aðkomu að þessu verkefni sem er annars vegar ríkið eða ríkissjóður og hins vegar sveitarfélögin sex. Þetta er auðvitað ekki fullnægjandi.

Kostnaðaráætlun um borgarlínu virðist hafa verið dálítið hlaupandi tala. Í einu skjali er nefnd talan 70 milljarðar sem hafi átt við árið 2018, var endurskoðuð 2019 upp í 80 milljarða. Hver veit hvar þetta endar, frú forseti? En ríkissjóður á að setja í þetta 50 milljarða og það er náttúrlega alveg með ólíkindum.

Frú forseti. Ég óska eftir því að verða skráður að nýju á mælendaskrá.