150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[17:09]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég hef verið að fara yfir álit meiri hluta fjárlaganefndar. Eitt vekur mig til umhugsunar þegar ég er búinn að renna yfir það, ekki kannski frá orði til orðs. Sætir það ekki nokkurri furðu að í meirihlutaálitinu, sem er upp á fimm blaðsíður, er ekkert fjallað um borgarlínuna? Það er ekkert fjallað um borgarlínuna nema bara endurtekið það sem var í greinargerð með frumvarpinu um hversu stór hluti af fjármögnun ætti að fara í borgarlínuna, annars ekki neitt. Vekur þetta ekki furðu, herra forseti?

Í minnihlutaáliti hv. þm. Birgis Þórarinssonar er fjallað um borgarlínuna að töluverðu leyti en í meirihlutaálitinu, sem allir aðrir hv. þingmenn í fjárlaganefnd skrifa undir, er ekkert um borgarlínu. Samt er þetta ein stærsta framkvæmd Íslandssögunnar. Kannski Kárahnjúkar séu stærri en þetta er ein stærsta einstaka framkvæmd Íslandssögunnar. Og í meirihlutaáliti fjárlaganefndar er ekkert um borgarlínu nema endurtekning á því sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu sjálfu. Reyndar stendur í lok nefndarálitsins eitthvað sem sýnir að menn eru eilítið hugsi. Ég les, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn áréttar að félaginu ber að gæta fyllstu hagkvæmni í starfseminni. Hér er um mikla fjármuni að tefla í eitt stærsta samgönguverkefni sem í hefur verið ráðist og því nauðsynlegt að vandað verði til verka í allri áætlanagerð og stuðst við ábata- og kostnaðargreiningar allra verkþátta og framkvæmdaröð.“

Ég get tekið heils hugar undir þetta. En menn ætla nú að skella sér í djúpu laugina þrátt fyrir allt, þrátt fyrir að ekki bara við þingmenn Miðflokksins heldur fjölmargir sérfræðingar á þessu sviði og stjórnmálamenn, bæði hér á þingi og í sveitarstjórnum, hafi bent á að verið sé að ráðast í mjög kostnaðarsamar framkvæmdir á verkefni sem er næsta lítt útfært. Og menn hafa varla áhyggjur af því. Það kemur ekki fram í meirihlutaálitinu nema að því leyti sem ég var að lesa hér upp. Sætir það ekki furðu, herra forseti?

Reyndar ber að taka fram að nokkrir þingmenn sem skrifa undir meirihlutaálitið gera það með fyrirvara. Vera má að í þeim fyrirvara felist einhvers konar varnaðarorð og maður skyldi ætla það og vona að þar væru einhver varnaðarorð við því að ráðast í framkvæmd sem er svona lítt útfærð.

Af því að ég er enn í nefndaráliti meiri hluta er þar bent á að ríkið taki á sig ábyrgð varðandi gjaldtöku á umferð og ég myndi gjarnan vilja fara betur í það í næstu ræðu minni. Ríkið tekur meginhluta af ábyrgðinni, 45 milljarða, og ber ábyrgð á þessum 60 milljörðum, að því er segir hér, með leyfi forseta:

„… tekur á sig ábyrgð á fjármögnun þeirra 60 milljarða kr. sem ætlunin er að fjármagna með flýti- og umferðargjöldum á höfuðborgarsvæðinu eða hugsanlega með eignasölu eða endurskoðun laga um skattlagningu á eldsneyti og ökutæki.“

Ríkið ber sem sagt ábyrgð á 45 milljörðum en ekki bara það heldur líka á þessum 60 milljörðum, (Forseti hringir.) hugsanlega með eignasölu, með því að selja Íslandsbanka.