150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[17:30]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Í síðustu ræðu minni var ég að fara nokkuð yfir leið fyrsta áfanga borgarlínu sem nú er nýkomin út og er á skrautsýningu úti í Ráðhúsi. Þar má sjá að fyrsti áfanginn á að fara frá Höfða og plægja þar í gegnum atvinnustarfsemi sem er þar nú og verður hrakin í burtu, væntanlega upp á Esjumela eða út úr borginni — það er mjög í tísku hjá borgarstjórnaryfirvöldum að hrekja bæði stofnanir og fyrirtæki út úr borginni — og á síðan að fara um Vogahverfi, stutt stopp, og svo niður Suðurlandsbrautina, sem einu sinni var, og ofanverðan Laugaveg. Á þessari leið, herra forseti, verður örugglega hægt að leggja rauðan dregil, þ.e. í gegnum atvinnuhverfið uppi á Höfða sem verður lagt af. Það er vandséð að hægt sé að setja sérgrein á Suðurlandsbrautina, elsta kaflann, en væntanlega verður hægt að stífla aðra akrein Suðurlandsbrautar nánast frá Elliðaám eða frá Skeifunni og niður að Hverfisgötu. Ég hef haft áhyggjur af því, og er búinn að lýsa þeim, að það hljóti að vera áhyggjuefni þeim sem hafa keypt íbúðir við Hverfisgötu að sjá það allt í einu að þessi strætisvagn, sem er u.þ.b. tvöfaldur á stærð við það sem nú gerist, eigi að fara á sjö mínútna fresti um Hverfisgötu. Ég held að það hljóti að vera áhyggjuefni margra.

Síðan, eins og fram hefur komið, fer þessi tvöfaldi strætisvagn niður á Lækjargötu. Ég veit ekki alveg hvernig hann á að ná beygjunni af Hverfisgötu inn á Lækjargötu en hugsanlega verður eitthvað gert til að það sé hægt. Það er merkilegt, herra forseti, í því sambandi að á svæðinu þar í kring, þ.e. á Hafnartorgi, er verið að reisa fyrsta fimm stjörnu hótel landsins en hvergi er gert ráð fyrir að borgarlínan komist þar nærri og hún var ekki höfð til hliðsjónar þegar þetta var byggt; aðalstöðvar Landsbankans og hvað þetta nú er. En ef borgarlínuvagninn nær að beygja þarna inn á Lækjargötuna mun leiðin liggja út Lækjargötu, tveir tvöfaldir strætisvagnar á sjö mínútna fresti, og inn á Skothúsveg.

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að það veldur mér sérstökum áhyggjum að þarna muni fara tvöfaldir strætisvagnar, sem eru 18 m langir og hugsanlega 40 tonn eða meira að þyngd, yfir þessa gömlu brú sem við eigum hér á Skothúsvegi, falleg brú og beint af augum frá Alþingishúsinu séð. Spurningin hlýtur að vera sú, ef þarna á að leggja rauðan dregil, hvort breikka eigi þá brú og breyta henni, styrkja hana, og hvort það á þá að verða á kostnað Tjarnarinnar. Það er atriði sem mér þykir mikils um vert að verði skýrt. Þetta er náttúrlega með því fororði að strætisvagninn nái beygjunni inn á Skothúsveginn sem ég sé ekki alveg fyrir mér. Frá þessu á leiðin að liggja fram með Háskólanum í Reykjavík því að farið verður til baka upp Hringbrautarhlutann. Og nota bene, herra forseti, ég hef ekki séð nokkra einustu tillögu um að Hringbrautin fyrir neðan hinn nýja Landspítala, sem er þar á röngum stað, verði efld. Ég hef ekkert séð sem bendir til þess að hin tvöfalda akrein, tvisvar sinnum tveir, á Hringbraut verði efld á nokkurn hátt. Þá spyr maður sig: Ef þarna á að þrengja að með borgarlínu að hluta, hvernig á þá að komast að þessum spítala? Það er ekki að ófyrirsynju sem menn gerðu ráð fyrir þyrlupalli því að umferðin þarna í kring hlýtur að verða þannig að engum verður fært að komast að spítalanum nema fuglinum fljúgandi. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvaða leiðir menn eiga.

Herra forseti. Ég ætlaði í framhaldi af þessu að fara nokkuð yfir það sem kemur fram í mjög góðri grein eftir Hilmar Þór Björnsson arkitekt. Ég sé að tími minn er að renna út þannig að ég næ því ekki og verð því að skilja við fyrsta áfangann við nýja Landspítalann og bið forseta um að setja mig á mælendaskrá að nýju.