154. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2024.

endurbætur á örorkulífeyriskerfinu.

[10:39]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins varðandi samráðið sem býr að baki þessu máli, þá held ég að það sé hægt að fullyrða að fyrstu hreyfingar og undirbúningur að gerð þingmálsins eigi rætur sínar að rekja allt til ráðherratíðar Eyglóar Harðardóttur. Síðan tók Þorsteinn Víglundsson við sem félagsmálaráðherra og við settum inn í fjármálaáætlun nokkra milljarða til þess að greiða fyrir kerfisbreytingunum sem við í grunninn erum að tala um núna. Ásmundur Einar Daðason var líka í samtali, þannig að það er margra ára samtal að baki þessum tillögum og sérstakur starfshópur sem Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi ráðherra, leiddi var í miklu samráði við Öryrkjabandalagið. Ég verð því að vísa því frá okkur í ríkisstjórninni að það hafi ekki verið rætt við hagsmunasamtök í þessu máli. Það er margra ára samtal hér að baki. En eins og ég sagði, ég veit af breytingartillögunum, þær eru í skoðun (Forseti hringir.) hjá fagráðherranum og ég er alveg opinn fyrir því að hlusta á niðurstöðuna. (Forseti hringir.) Þetta eru auðvitað margar breytingartillögur þannig að það þarf að skoða hverja og eina.