154. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2024.

auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

[10:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þá skulum við bara eyða þessum misskilningi. Það má ekki vera misskilningur þegar kemur að auðlindum þjóðarinnar. Það má ekki vera einhver þrætubók á milli núverandi forsætisráðherra og einhverra í stjórnarandstöðu eða næsta forsætisráðherra og einhverra annarra í stjórnarandstöðu sem verður hugsanlega núverandi forsætisráðherra. Þetta bara er ekki þannig. Við getum ekki leyft okkur að höndla þannig með auðlindir þjóðarinnar. Það er einfaldlega þannig að það var þessi ríkisstjórn sem setti fram ótímabundnar heimildir í frumvarpi sem þau bera ábyrgð á og þá skulum við eyða þessum vafa og virkilega vinna að því að koma auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Við skuldum þjóðinni það að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem felur í sér að það verður aldrei hægt að afhenda auðlindir þjóðarinnar ótímabundið til aðila, hvort sem það eru íslenskir aðilar eða erlendir, þannig að í guðanna bænum sameinumst þá um það að eyða þessum misskilningi, (Forseti hringir.) gerum það í þágu þjóðarinnar og setjum inn afgerandi auðlindaákvæði í stjórnarskrá.