154. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2024.

aðgerðir til að tryggja umferðaröryggi.

[10:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hæstv. innviðaráðherra hvernig hún hyggst axla ábyrgð á þeim alvarlegu og fjölmörgu bílslysum sem hafa orðið víðs vegar um landið það sem af er ári. Á föstudaginn síðasta fór rúta út af veginum um Öxnadalsheiði með þeim afleiðingum að fjölmargir farþegar slösuðust. Fimm voru fluttir með þyrlu og sjúkravélum á Landspítalann, fimm voru lagðir inn á Sjúkrahúsið á Akureyri og enn er tveimur haldið sofandi í öndunarvél. Blæðingar voru á vettvangi rútuslyssins og vegfarandi sagði að vegurinn á þeim kafla er slysið varð hafi verið ein stór tjörudrulla. Þá voru fjölmargar tilkynningar um sams konar blæðingar víðs vegar um land um síðustu helgi, svo sem á Vestfjörðum. Það er alveg ljóst að það er eitthvað mikið að vegakerfinu okkar. Það sem af er hafa 15 einstaklingar látið lífið í umferðinni og til samanburðar létust átta í umferðinni í fyrra og níu árið 2022. Hver eru viðbrögð hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar við þessu ófremdarástandi? Jú, það er að slá samgönguáætlun út af borðinu í þinglok. Maður hefði nú haldið að það væri einmitt tilefni til að gera töluverðar umbætur á samgönguáætlun til að koma í veg fyrir að við upplifum einhverjar mestu hörmungar í umferðinni sem við höfum nokkurn tíma séð. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að axla ábyrgð á þessum hörmungum?

Að nota matarolíu til að djúpsteikja vegakerfið um allt land með tilheyrandi slysahættu er gjörsamlega fáránlegt og ég get ekki orða bundist yfir að við skulum vera — vegna þess að það þarf mjög lítið hitastig til að vegum blæði og við verðum að sjá til þess að vegakerfið sé byggt þannig upp að það sé öruggt. Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera til að gera vegakerfið öruggt og ætlar hún að hætta að djúpsteikja vegi út um allt land?