154. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2024.

aðgerðir til að tryggja umferðaröryggi .

[10:50]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er sannarlega mikið áhyggjuefni hversu tíð alvarleg umferðarslys hafa verið nú að undanförnu og þær áskoranir sem því fylgja. Það sem er auðvitað átakanlegast við þau umferðarslys er hreinlega það hversu margir hafa dáið í umferðarslysum á síðustu mánuðum og misserum, sem er þyngra en tárum taki og er auðvitað alvarlegasti skaðinn sem verður aldrei bættur.

Hv. þingmaður kemur hér að nokkrum atriðum sem snúast að hluta til um ástand veganna okkar, sem mig langar að taka undir að er áhyggjuefni, ástand vega í landinu er víða mjög alvarlegt eftir veturinn. Þungatakmarkanir eru í gildi víða um land en það er samt alveg ljóst að síðustu ár eru þannig að aukning hefur orðið veruleg á álagi á vegakerfið þannig að við þurfum að mæta þessu með hlutfallslega meira viðhaldi heldur en hefur verið í gegnum árin. Það hefur verið ákall um það síðustu ár og við því hefur verið brugðist að hluta. Þetta aukna álag er náttúrlega bara áþreifanleg afleiðing af því að umsvifin í samfélaginu hafa stóraukist. Ferðaþjónusta hefur stóraukist og ég tala nú ekki um þungaflutninga á vegunum sem hafa stóraukist líka og hafa valdið sliti langt umfram það sem við höfum áður séð, merki um það að okkur gangi vel og uppgangur sé víða um land en þetta er skuggahliðin á því. Við því þarf að bregðast (Forseti hringir.) og ég er sammála hv. þingmanni um að á það þurfum við að leggja áherslu af myndarbrag og ekki síst í þágu umferðaröryggis.

.