154. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2024.

fordæming á framgöngu Ísraelsmanna á Gaza sem þjóðarmorðs.

[10:55]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ísland er eitt 146 ríkja sem hafa viðurkennt sjálfstæði Palestínu og var raunar fyrst vestrænna ríkja til þess. Eftir stofnun Ísraelsríkis árið 1948 háðu Ísraelsmenn stríð gegn Palestínumönnum sem fyrir voru á svæðinu. Rúmlega 700.000 einstaklingar voru hraktir frá heimkynnum sínum og 15.000 voru myrtir í þjóðernishreinsunum hins nýja Ísraels. Þennan atburð í sögunni kalla Palestínumenn Nakba eða hörmungarnar. Þann 8. október 2023 hóf Ísrael árásir á Gaza af fordæmalausri hörku. Sem stendur hafa um 40.000 einstaklingar verið myrtir, þar af helmingurinn börn. Þá eru ótaldar rúmlega 85.000 manneskjur sem hafa særst og svo þau sem ekki hafa fundist sem telja á tíunda þúsund. Ísraelsher eirir engu og engum og flestallir innviðir eru í rúst. Ísraelsher hefur sprengt upp meira en helming heimila fólks, 88% skóla, þar með talið skóla á vegum Sameinuðu þjóðanna, spítala, flóttamannabúðir og moskur. Allt eru þetta ólögmæt skotmörk samkvæmt alþjóðalögum sem gerir þessar árásir að stríðsglæpum. En ekki nóg með það. Ísraelsher hindrar mannúðaraðstoð inn á svæðið en talið er að í kringum 17.000 börn hafi misst einn eða fleiri útlimi, konur þurfa að gangast undir keisaraskurði án deyfingar og fólk sveltur heilu hungri, ekki af því að matur er ekki til heldur af því honum er kerfisbundið haldið frá fólki. Það er því ekki að undra að Palestínumenn tali um að verið sé að fremja annað Nakba, aðrar hörmungar með nýrri tækni og áður óþekktri grimmd og eyðileggingu.

Suður-Afríka hefur stefnt Ísrael fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag fyrir þjóðarmorð og hefur dómstóllinn samþykkti að taka málið fyrir. Þjóðarmorð er þegar hernaði og voðaverkum er gagngert beitt í þeim tilgangi að útrýma þjóð að hluta eða öllu. Gaza-svæðið er umlukt múrum og hefur oft verið kallað stærsta fangelsi heims. Sprengjuregn Ísraelshers dynur á Palestínufólki linnulaust og það á sér engrar undankomu auðið, (Forseti hringir.) svo ég spyr: Ætlar hæstv. forsætisráðherra Íslands að fordæma voðaverk Ísraels sem þjóðarmorð?