154. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2024.

fordæming á framgöngu Ísraelsmanna á Gaza sem þjóðarmorðs.

[10:57]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum áður rætt stöðuna á Gaza á Alþingi og þegar mér fannst sem þingflokkar ætluðu að fara að skipa sér í fylkingar hér síðastliðið haust þá hvatti ég til þess að við opnuðum augum fyrir því að það er miklu fleira sem sameinar okkur í sýn okkar á stöðunni á Gaza og í þessum hörmulegu átökum milli Ísraelshers og Hamas-liða, sem hafa staðið yfir allt of lengi, heldur en sundrar okkur. Þess vegna var ég mjög ánægður með það þegar í utanríkismálanefnd tókst breið samstaða um að tefla fram þingsályktunartillögu þar sem kveðið er skýrt á um sýn Alþingis á þetta mál. Ég vísa hér beint til þingsályktunartillögunnar um það að „Alþingi ályktar að án tafar skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo tryggja megi öryggi almennra borgara, jafnt palestínskra sem ísraelskra. Alþingi fordæmir öll ofbeldisverk sem beinast gegn almennum borgurum í Palestínu og Ísrael. Alþingi krefst þess að alþjóðalögum sé fylgt í einu og öllu í þágu mannúðar, öryggis almennra borgara og verndar borgaralegra innviða“.

Í þessari ályktun var hryðjuverkaárás Hamas-liða fordæmd o.s.frv., þetta þekkjum við. Við höfum þess vegna verið mjög skýr og mér finnst skipta máli að safna kröftum Alþingis og koma skýrri rödd út til alþjóðasamfélagsins um það hvað það er sem Ísland vill standa fyrir.

Hér er spurt hvort forsætisráðherra telji að skilyrði séu uppfyllt til að fordæma á grundvelli þjóðarmorðs. Þar sem við höfum gert í þessu er að við höfum aukið fjármagn til Alþjóðadómstólsins. Við höfum lagt áherslu á að öll slík möguleg brot (Forseti hringir.) séu rannsökuð og það sé síðan kveðið upp úr með það á til þess bærum stað, sem er Alþjóðadómstóllinn, hvort skilyrði séu uppfyllt fyrir því (Forseti hringir.) að kveða upp úr með að þjóðarmorð hafi átt sér stað. Ég sé engan sérstakan ávinning í því að komast að minni eigin persónulegu niðurstöðu um það. (Forseti hringir.) Mér finnst betra að það sé gert á réttum stað á réttum forsendum eins og hingað til.