154. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2024.

gjaldtaka á bílastæðum við innanlandsflugvelli.

[11:08]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hvað varðar heimildir til gjaldtöku og aðkomu mína að því þá er hún ekki fyrir hendi, svo það liggi fyrir. Hv. þingmaður er að fræða mig á því að fjármálaráðherra taki ákvörðun um þjónustusamninginn. Það er þannig að þjónustusamningur við Isavia innan lands er undirritaður bæði af innviðaráðherra og fjármálaráðherra þannig að það eru tveir ráðherrar sem þurfa að undirrita það og það hefur verið gert. Þar eru þessar heimildir ekki nýjar, þær hafa verið í fyrri þjónustusamningi.

Hv. þingmaður hefur sérstakar áhyggjur af því sem lýtur að læknisheimsóknum og kostnaði sem af því hlýst. Ég vil bara nefna það hér í því samhengi að það er gert ráð fyrir því að fólk sem þarf að sækja heilbrigðisþjónustu um langan veg, og sérstaklega þá utan af landi inn á höfuðborgarsvæðið, á rétt á tilteknum endurgreiðslum Sjúkratrygginga og þar hafa þessar greiðslur ekki verið hluti af þeirri heild. En ég tel, svona (Forseti hringir.) þekkjandi Sjúkratryggingar og heilbrigðismálin frá fyrri tíð, (Forseti hringir.) að það væri leið til að nálgast þennan kostnað og koma til móts við hann. (Forseti hringir.) Það er auðvitað heilbrigðisráðherra sem hefur það á sínu borði en ég held að það gæti verið lausn í málinu.